Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
26.6.2007 | 20:45
Í hnotskurn:
Þrjár plötur sem ég hef verið að rúlla í gegnum síðustu daga og vikur. Slatti af lögum í spilaranum hér til hægri. Njótið.
Memory almost full Paul McCartney [2007]
Kannski er ég svona rosalega mikill McCartney-maður að ég á erfitt með að segja slæma hluti um manninn og þá sérstaklega tónlist hans. Það er eitthvað við melódíurnar hans sem alltaf hefur heillað mig, ég man t.d. ekki í fljótu bragði eftir lélegu McCartney-lagi? Ok, O-bla-di-o-bla-da er ekkert spes, en það er samt svo lýsandi fyrir lög McCartney að kynslóð eftir kynslóð þekkja lögin hans og geta hummað með!
Jæja, þá að þessari plötu. Hún er alveg hreint ágæt, ekki jafn góð og síðasta plata (Chaos and creation in the backyard frá árinu 2005) en það er margt rosalega viðkunnanlegt á plötunni, flest lögin eru mjög Paul-leg. Það hefur verið mikið gagnrýnt að platan sé gefin út af Hear Music (í eigu Starbucks), ég læt þá umræðu bíða betri tíma, enda hefur hún ekkert að gera með innihaldið. Þetta er björt og hressandi plata kærkomið bítl árið 2007.
Hápunktar: Mister Bellamy, Ever present past og Only mama knows. (hlustið hér til hægri)
Einkunn: 7.5
Fróðleiksmoli: Hear music var upphaflega stofnað árið 1990 en var keypt af Starbucks árið 1999. Hear music er bæði plötubúð og plötuútgefandi.
[heimasíða]
All of a sudden I miss everyone Explosions in the sky [2007]
Póstrokkararnir frá Texas senda hér frá sér sína fimmtu stúdíóbreiðskífu og verð ég að játa að þetta er sú fyrsta sem ég hlusta á í heild sinni. Sveitin spilar instrumental síð-indí-rokk. Þar sem að platan er einungis sex trakkar og myndar ákveðið konsept þá er engin ástæða til þess að fara úti einstaka lög. Þessi plata rennur snuðrulaust í gegn og oftast áreynslulítið, reyndar aftrar það henni hversu fyrirsjánleg lögin eru, þ.e. þeir komu mér aldrei á óvart þessar tæpu 44 mínútur platan rann í gegn. Engu að síður, þá er ég nokkuð ánægður með þessa plötu og hefur hún fengið að renna í gegn þó nokkrum sinnum.
Hápunktur: Welcome, Ghosts (hlustið hér til hægri)
Einkunn: 7.0
Fróðleiksmoli: Tónlist sveitarinnar hefur verið notuð þó nokkuð í sjónvarpi og í kvikmyndum. M.a. í myndinni Friday night lights með Billy Bob Thornton í aðalhlutverki.
[myspace]
Armchair Apocrypha Andrew Bird [2007]
Það er alltaf gaman að uppgötva eitthvað nýtt, ég hef séð og heyrt nafnið Andrew Bird þó nokkrum sinnum á síðustu árum en aldrei heyrt eina einustu nótu með honum (allavega ekki meðvitað). Þessa plötu komst ég yfir á dögunum og hef hlustið duglega á síðan. Þetta eintak er gríðarlega þétt, mörg eftirminnileg lög og síðast en ekki síst þá er strúktur á plötunni. Það eru margar stefnur sem mætast á þessari plötu, t.d. heyri ég smá swing í þessu hjá honum, í bland við folk, klassík og auðvitað við popp og rokk. Fínasta plata nú er bara að kíkja á gamla stöffið, plata hans frá 2005 Andrew Bird & the Mysterious Production of Eggs á víst að vera þrusugóð.
Hápunktar: Fiery crash, Imotosis og Plasticities. (hlustið hér til hægri)
Einkunn: 7.5
Fróðleiksmoli: Andrew hefur verið duglegur að spila inná plötur með öðrum flytjendum. Hann spilar t.d. inná Greatest Palace Music með Bonnie 'Prince' Billy frá 2004 og Z með My Morning Jacket frá 2005.
[myspace]
Tónlist | Breytt 27.6.2007 kl. 08:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.6.2007 | 17:45
Arthur Brown var maðurinn
Myndbandið hér að ofan er auðvitað lagið sem hann er lang lang frægastur fyrir, "Fire" og var það bandið Crazy world of Arthur Brown sem flutti. Ruglaður heimur Arthur Brown náði ekki neinu alvöru flugi eftir þennan mega-hittara, upphafslína lagsins: "I am the god of hellfire and I bring you....." er auðvitað fræg. Mín kynslóð þekkir kannski best upphafslínu lagsins frá lagi með Prodigy frá 90s (sjá hér).
Arthur Brown var eitthvað að gaufast við heimspeki og lögfræði í háskóla þegar hann gekk til liðs við hljómsveitina The Ramong Sound, sú sveit breyttist síðar í the Foundations ("Build me up buttercup" og "Baby, now that I´ve found I can let you go"), en Arthur hafði hætt í sveitinni áður en hún meikaði það. Árið 1968 kom svo stóra "breikþrúið", platan "Crazy world of Arthur Brown" kom út og náði óvæntum vinsældum bæði í Evrópu sem og í USA. Pete Townshend (úr Who) stjórnaði upptökum plötunnar og í bandinu hans voru engir aukvisar.
Arthur vakti gríðarlega athygli fyrir magnaða sviðsframkomu, hjálmurinn góði var á sínum stað og ósjaldan var kveikt í honum. Oftar en ekki komst Arthur í hann krappann á tónleikum og var til að mynda hætt við marga tónleika hans í USA vegna ágreinings um tryggingamál.
Ég ætla ekki að fara nánar út í skrautlegan feril Arthur Brown, heldur að ljúka þessu á myndbroti frá Glastonbury frá árinu 1971, vægast sagt skrautlegt. Hvaðan ætli Alice Cooper og Kiss hafi fengið hugmyndina um andlitsmálninguna?? Hmm.....
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.6.2007 | 14:53
Hver er maðurinn?
Þekkir þú þennan tónlistarmann? Þessi mynd af honum er frekar nýleg.
Ég ætla að gefa eina vísbendingu:
Kappinn er pjúra "eins-smells undur", og var hans eini smellur vinsæll undir lok sjöunda áratugsins.
Hver er maðurinn?
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.6.2007 | 12:52
Þessa dagana er ég að hlusta á....
Það hefur lítið verið um heilar plötur síðustu daga, meira um einstaka lög. Reyndar er ég að renna í gegn þessa dagana "Armchair Apocrypha" með Andrew Bird, "All Of A Sudden I Miss Everyone" með Explosions In The Sky og "Memory almost full" með Paul McCartney.
Af einstökum lögum sem hafa orðið á vegi mínum þá líst mér best á: (öll lögin eru í spilaranum hér til hægri)
"Fake empire" með The National
Ég veit ég er ógeðslega eftir á að "hæpa" þetta núna en einhvern veginn atvikaðist það þannig að ég var fyrst að heyra í þessu bandi í síðustu viku. Frábært lag og hlakka til að eignast plötuna "The Boxer", sem er einmitt fjórða stóra plata þessara drengja frá Ohio.
[Myspace]
"Pick me up uppercut" með Pop Levi
Mjög spes kauði frá Liverpool sem spilar tónlist sem er á jaðri argasta popps og glamrokks. Var í böndum eins og Super Numeri og Ladytron en fór sóló fyrir nokkrum árum og hefur verið að vekja athygli. Platan "The Return to Form Black Magick Party" kom út reyndar í lok árs 2005 en ekki "worldwide" fyrr en á þessu ári. Lagið "Pick me up uppercut" er hið hressasta. Það er hægt að streyma aragrúa af lögum Pop Levi inni á mæspesinu hans, sem og sjá fullt af myndböndum.
[Myspace]
"Kingdoms of rain" - Soulsavers
Leonard Cohen? Nei. Johnny Cash? Nei. Tom Waits? Nei. Þetta er víst Mark Lanegan sem ljáir Soulsavers rödd sína í þessu lagi. Soulsavers er "framleiðslu-dúett" skipaður Rich Machin og Ian Glover og er þetta lag af tiltölulega nýútkominni breiðskífu þeirra "It's Not How Far You Fall, It's The Way You Land", en þetta er önnur breiðskífa þeirra kappa. Dúettin fær hina og þessa listamenn til liðs við sig og á nýju plötunni má heyra breðga fyrir Will Oldam (Bonnie Prince Billy) og Jimmi Goodwin (úr Doves). Þetta lag, "Kingdoms of rain" er magnað.
[Myspace]
"Goodbye July / Margt að Ugga" með Hjaltalín
Ég var búinn að blogga áður um þessa íslensku sveit, Hjaltalín, en þá var þetta stórkostlega lag, "Goodbye July / Margt að Ugga" ekki fáanlegt á veraldarvefnum. Núna komst í hins vegar yfir live-upptöku úr Popplandinu á Rás 2. Hlustið hér til hægri, ég trúi ekki öðru en að þetta band eigi eftir að láta meira af sér kveða. Bíð spenntur eftir plötunni.
[Myspace]
"Svefn" með Stafrænum Hákon
Nýjasta plata eins-manns-sveitarinnar er komin út og heitir hún því skemmtilega nafni "Gummi", platan er komin út hér og þar í heiminum, t.d. í Asíu og í Skandinavíu, en hún virðist ekki vera komin út hér heima né í UK. Það sem ég hef heyrt af plötunni er mjög gott, þannig séð er þetta sjálfstætt framhald af því sem S. Hákon hefur verið að gera, en með þeirri stóru breytingu að flest lögin eru nú með söng. Lagið "Svefn" er t.d. sungið af Birgi nokkrum Hilmarssyni (Ampop). Lagið er stórgott, skemmtileg blanda af gömlu góðu S. Hákons-sándi í bland við pjúra indie-rokk.
[Myspace]
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2007 | 22:56
"Hold me closer to your heart" á heilanum
Ég sé að það er nú þegar búið að bóka þá á Airwaves í október og þeir munu hita upp fyrir The Rapture á Nösu núna í lok mánaðarins. Line-uppið þeirra á tónleikum er ekki af ódýrari sortinni, menn eins og Tobbi (fyrrv. Jeff Who og núverandi Dr. Spock), Gísli Galdur (Trabant, Ghostigital), Viðar (Trabant) o.fl. spila með þeim Birgi og Árna læv. Birgi hef ég ekki séð áður í "bransanum" en Árni er m.a. í FM Belfast, sem er eitt af hressustu læv-böndunum á klakanum í dag. Þeir stefna víst á breiðskífu með haustinu, það verður spennandi að fylgjast með því. Hitt lagið á myspace-inu þeirra er ágætt, "Waiting to happen", samt ekki af sama kaliberi og smellurinn.
Hlustaðu á lagið og fáðu það á heilann, mæli með því!
[myspace] [viðtal við Motion Boys í Grapevine]
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.6.2007 | 20:54
Björk og Feist í hnotskurn
Er búinn að hafa fínan tíma til þess að melta Voltu-plötuna hennar Bjarkar sem og fjórðu stóru plötu kanadíska tónlistarkrúttsins Leslie Feist. Hér koma hugrenningar mínar um þessar elskur.
Í hnotskurn: Volta Björk [2007]
Hljóðheimur Bjarkar er einstakur og það er í rauninni ekkert sem líkist því sándi sem hún nær einhvern veginn að búa til hverju sinni. Ég ber ómælda virðingu fyrir þessum tónlistarmanni og er ferill hennar glæsilegur. Platan Volta er virklega vegleg og faglega unnin í alla staði en einhvern veginn virðist hún ekki ná því sem mér finnst einkenna virkilega góðar plötur, en það er flæði og heildarmynd. Mér finnst sá leiðangur sem hlustandinn leggur upp í vera of misjafn og ekki renna nógu eðlilega og smurt fyrir sig. Það eru mörg góð lög á plötunni, svo eru önnur ekkert spes. T.d. eru fyrstu þrjú lög plötunnar frábær og svo dalar þetta smátt saman, það er einfaldlega of snemmt á 11-laga breiðskífu. Þetta er yfir meðallagi, en ekki langt.
Hápunktar: Earth intruders, Wanderlust og The dull flame of desire (hlusta til hægri)
Einkunn: 7.0
Fróðleiksmoli: Björk var söngkona Sykurmolanna!!
[myndband] við lagið Earth intruders
[myspace]
Í hnotskurn: The Reminder Feist [2007]
Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn að stelpulegu krúttpoppi, jú jú það hafa komið eitt og eitt lag hér og þar og jú Fisherman´s woman með Emilíönu Torrini fannst mér mjög góð, en... þegar ég heyrði þessa plötu, The Reminder með kanadísku tónlistarkonunni Leslie Feist þá verð ég að endurskoða þessa afstöðu mína gagnvart stelpulegu krúttpoppi. Þessi plata verður bara betri og betri við hverja einustu hlustun, fullt af góðum lögum og svo er hún Feist virkilega góð söngkona og útsetningarnar margar hverja mjög góðar. Urmull af góðum lögum, gott eintak hér á ferð.
Hápunktar: I feel it all, My moon my man og Past in present. (hlusta til hægri)
Einkunn: 8.0
Fróðleiksmoli #1: Feist bjó með Íslandsvinkonunni Peaches í 2 ár í Berlín og hafa þeir stöllur unnið saman að nokkrum verkefnum.
Fróðleiksmoli #2: Feist syngur í nokkrum lögum á plötu Kings of Convenience: Riot on an empty street frá árinu 2004.
[myndband] lagið My moon my man
[myspace]
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.6.2007 | 20:22
Svör við laufléttri getraun
Bloggvinur minn, Egill Harðar, var með þetta laukrétt:
1. Led Zeppelin Led Zeppelin
2. Lean into it Mr. Big
3. Rage against the magchine Rage against the machine
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2007 | 11:27
Specials og hressandi getraun
Mikið rétt hjá Agli, lagið sem var merkt "xxxxx-xxxxx" í spilaranum hér til hægri heitir "Ghost town" með The Specials. Þeir kölluðu sig upphaflega The Coventry Specials og það svarar auðvitað spurningunni um hvaðan þeir komu. Allt laukrétt.
The Specials spiluðu nokkurs konar nýbylgju-ska tónlist og kom lagið sem spurt var um út árið 1981. Þetta var mikil ádeila á ástandið sem ríkti í heimalandi þeirra og þá sérstaklega á stefnu Tatcher-ríkisstjórnarinnar en hún þótti leiða til mikils atvinnuleysis og fór heimaborg Specials-manna ekki varhluta af því. Eitt mesta atvinnuleysi landsins á þessum tíma var einmitt í Conventry, hátt í 20%.
Það má auðvitað deila um hvort að The Specials teljist vera "one hit wonders"eða ekki, þeir náðu fleiri lögum en þessu inná topp 10 í UK og teljast flytjendur á því kaliberi sjaldnast til eins smells undra. Ég, persónulega, þekki bara þetta lag með þeim og því falla þeir undir þennan vafasam hatt hjá mér.
Lagið "Ghost town" var þrjár vikur á toppnum í Bretlandi og auðvitað víðar í Evrópu. Myndband við lagið:
Getraun
Ég hef alltaf haft smá áhuga á plötuumslögum og þá aðallega þeim sem eru í eldri kantinum (60s, 70s, 80s). Í gamni mínu þá datt mér í huga að skella fram getraun sem tengist plötuumslögum, svona aðeins til þess að kanna snilli og gáfur lesenda síðunnar.
Þetta eru þrjár spurningar og allar tengjast þær plötuumslögum með skírskotun í atburði úr mannkynssögunni. Í öllum tilvikum spyr ég um heiti á plötu og flytjanda.
1. Í maímánuði árið 1937 fórst stýranlegur loftbelgur við Lakehust í New Jersey. Augnablikið sem slysið átti sér stað prýðir frægt plötualbúm. Hvaða heitir platan og hverjir flytja?
2. Annað sögufrægt slys átti sér stað síðla árs 1895 í París, nánar tiltekið á Gare Montparnasse lestarstöðinni. Á plötuumslagi frá upphafi 10. áratugarsins er hægt að sjá slysstaðinn nokkrum augnablikum eftir að slysið átti sér stað. Hvað heitir platan og hverjir flytja?
3. Í upphafi sumars árið 1963 brenndi Víetnamskur búddamunkur sig til dauða á miðjum gatnamótum í miðbæ Saigon. Með þessu var hann að mótmæla ofsóknum Suður-Víetnamska forsetans og hans stjórn á hendur búddatrúa. Á plötuumslagi frá upphafi síðasti áratugar, sést þegar búddamúnkurinn situr í ljósum logum hvað heitir platan og hverjir flytja?
Þeir sem hafa áhuga og/eða nennu svara í kommentadálkinn hér fyrir neðan.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.6.2007 | 12:41
Eins smells undur: David McWilliams
David McWilliams heitinn, fæddist í Belfast á Írlandi árið 1945. David þessi var þessi týpíski singer/songwriter a la Donovan og Bob Dylan en að margra mati var hann ekki nógu orginal. Árið 1966 kom hans fyrsti singull og eftir það tók Phil Solomon, landi hans sem hafði m.a. umbað fyrir Them og Bachelors, við stjórninni og reyndi að koma David á framfæri. Ári síðar tók David upp heilar þrjár breiðskífur (allt á árinu 1967) og pródúserinn var ekki af verri sortinni, Mike Leander sem m.a. hafði pródúserað Marianne Faithfull. En, allt kom fyrir ekki, það var aðeins eitt lag sem náði einhverjum vinsældum af ráði og það var lagið sem hann er þekktur fyrir, The days of Pearly Spencer. Lagið var spilað grimmt á bresku útvarpsstöðvunum en einhverja hluta vegna náði það ekki miklum hæðum á vinsældarlistunum. Lagið var hins vegar mjög vinsælt í Belgíu, Hollandi, Frakklandi og á Ítalíu.
Lagið sjálft er stórgott, mjög myrkt yfir því og sinfóníu-stemmarinn með vælandi fiðlurnar gefur því skemmtilegan svip. Þetta er í anda þeirrar sækadelíu sem var í gangi á þessum tíma (um 1967).
Sögur herma að David hafi aldrei litið á sig sem stjörnu, þó svo að hann væri að spila fyrir fullu húsi á föstudagskvöldi þá lét hann sig ekki vanta í leik með fótboltaliði sínu morguninn eftir í laugardagsdeildinni í heimabæ sínum. David hélt áfram að búa til tónlist á 8. áratugnum en án teljandi vinsælda. David lést árið 2002.
[Heimasíða aðdáendaklúbbs David McWilliams]
Getraun
Og ein lauflétt getraun í helgarlok.... það er lag hérna í tónlistarspilaranum hér til hægri merkt "xxxxx-xxxxx". Það má auðvitað deila um hvort þetta sé eins smells undur, í mínum augum og eyrum er það svo. Allavega, þá spyr ég um lagaheiti, hljómsveit og hvaðan þeir eru (borg og land).
Þeir sem hafa áhuga geta svarað í kommentakerfið.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar