Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Surfin´ bird - The Trashmen

Þetta lag hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Þetta er svo kúl lag en jafnframt mikil sýra að það nær ekki nokkurri átt.

Hljómsveitin The Trashmen er frá Minnesota og var stofnuð árið 1962. Þetta voru rokkarar en með nokkuð sérstaka áherslu miðað við staðsetningu (búsetu), þeir sungu um brimbretti og sólarstrendur en sóttu væntanlega ekki mikinn innblástur úr heimabyggðinni. Ári síðar, eða 1963, kom þetta lag eins og stormsveipur inn á ameríska vinsældarlistann og náði hæst fjórða sæti. Lagið var reyndar samsuða tveggja laga með ryþma- og blússveitinni The Rivingtons, þetta eru lögin "Papa-Oom-Mow-Mow" og "The Bird's the Word". Rusakarlarnir skrifuðu reyndar sjálfa sig fyrir laginu á fyrstu plötunni og voru Rivingtons eðlilega ekki par hrifin af því upptæki. Þau hótuðu öllu illu og fengu sínu framgengt, þ.e.a.s. Rivingtons eiga lagið "Surfin´bird". Það átti eftir að koma sér vel enda lagið mikið "koverað", m.a. af Ramones, Cramps og Beach Boys. Lagið kom líka fram í bíómyndum eins og "Pink Flamingos" (John Waters) og "Full Metal Jacket" (Stanley Kubrick).

Hér er "Papa-Oom-Mow-Mow" í flutningi Rivingtons en við heimatilbúið myndband einhvers "nöttara" í brúðuleikhúsleik. Hér er svo "The Bird's the Word" við annað heimagert myndband, alveg hreint ógleymanlega skemmtilegt en þó í flutningi Rivingtons.

Hér er svo lagið sjálft, "Surfin´bird" í flutningi The Trashmen en það sem fyrir augu ber í myndbandinu eru hinar ýmsu glefsur frá ferli sveitarinnar.



Bakhliðin á smáskífunni "Surfin´bird" var hið ágæta lag "King of surf", það má heyra hér og með smá kynningu af hinum geðþekka Music Mike.

The Trashmen lögðu upp laupana árið 1967 en náðu fram að því að gera nokkra hittara, þó engan í námunda við þá snilld sem er hér að ofan. Sveitin kom saman aftur í lok 80s og síðan stöku sinnum, við og við, við hin ýmsu tilefni.

Töflutætandi svíbjóður: "Det snurrar i min skalle"

Eða eitthvað svoleiðis. Ég fíla svona almennt ekki sænska tónlist, veit ekki hvað það er, það virðist bara ekki vera margt að mínu tónlistarskapi sem kemur frá Svíþjóð. Reyndar finnst mér lagið "Det snurrar i min skalle" með Familjen vera hreint alveg ilmandi gott kaffi. Þetta minnir helst á hið rjúkandi góða Skånerost kaffi frá Zoega, svo hressandi er þetta.

Allavega þá er Familjen eins manns verkefni Johanns T. Karlssonar og hefur debjú-platan sem kom út í fyrra, "Det snurrar i min skalle" fengið prýðisgóðar viðtökur í heimalandinu. Á tónleikum fær Johann hann Andreas Tillander vin sinn með sér í lið og stjórnar hann tökkum og tólum.
Tónlist Familjen mætti lýsa sem töflutætandi svíbjóði með dassi af 90s poppi, dans og teknó. Samsuða af Pet Shop Boys og Daft Punk kannski?

Hér er myndbandið við hið geysi hressandi lag, "Det snurrar i min skalle" (er einhver sterkur í sænskunni sem gæti þýtt þetta lagaheiti?):



[mp3] "Det snurrar i min skalle" - Familjen

Fleiri lög/vídjó með Familjen: "Hög luft", "Kom sager dom" og svo má sjá lagið "Det snurrar i min skalle" læv hér á Malmöfestivalen, óhætt að segja að þetta sé vinsælt í Svíaríki, allavega á Skáni, þar sem að menn drekka Skånerost kaffi.

[mæspeis]

Geymt og grafið: nokkur 80s lög

Ákvað að dusta rykið af 80s safninu mínu og finna fram nokkur lög sem virðast einhvern veginn hafa fallið í gleymskunnar dá. Hér eru þrjú kvikindi valin af handahófi, en þau eiga það öll sameiginlegt að vera urrandi góð og hressandi.

If I was – Midge Ure
uvox_ure2James Ure (kallaður Jim, afturábak er Jim = Mij, sem verður Midge) er kannski frægastur fyrir að vera fronturinn í Ultravox (t.d. lagið “Vienna”) og fyrir að hafa samið “Do they know it´s christmas?” ásamt Bob Geldof. Það sem kannski færri muna eftir er að hann gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 1985 sem bar heitið “The Gift” og á henni var þetta ódauðlega lag, “If I was”.

Myndbandið við lagið er náttúrulega bara í takt við það sem var að gerast á þessum tíma, almenn hallærislegheit og tískuslys! Spurning samt um að ofnota ekki “pin impression”-effektinn um of í myndbandinu! Reyndar rifjar þetta upp gamla tíma þegar þetta dót var gríðarlegar vinsælt.

“If I was” er í spilaranum hér til hægri.



Love missile F1-11 – Sigue Sigue Sputnik
n95n-s57 Tónlist Sigue Sigue Sputnik (eða “Brenna, brenna, gervihnöttur”) er kannski best skilgreind sem glam-poppað cyperpönk, þessi sveit er nokkuð merkileg og vilja gárungarnir meina að hún sé meiri áhrifavaldur í tónlistarsögunni en gefið sé í skyn. Þá er kannski helst verið að tala um framkomu og heildarpakka frekar en einhverja tónlistarlega snilld. “Love missile F1-11” var fyrsti síngull sveitarinnar og fór í þriðja sæti breska listans og var lagið m.a. í hinnu geysivinsælu kvikmynd “Ferris Bueller’s day off”. Fyrsta plata sveitarinnar, sem og síngullinn, er pródúseraður af meistara Giorgio Moroder.

“Love missile F1-11” er í spilaranum hér til hægri.



Too late for goodbyes – Julian Lennon
396c_1Mér finnst skrýtið að þessi perla hans Julian hafi ekki lifað betur en raun ber vitni, þetta er einstaklega kunnuglegt sánd, Lennon-legt og með svona dass af UB40-ska/reggí áhrifum, sem sagt, steinliggur. Lagið er af fyrstu breiðskífu Julian og var þetta aðal hittari plötunnar. Julian er eins og flestir vita sonur John Lennon og fyrri konu hans, Cynthiu. Þetta lag er merkilegt fyrir þær sakir að Toots nokkur Thielemans leikur á munnhörpu í laginu, Toots er þekktur belgískur djazzari og var mikill áhrifavaldur fyrir John Lennon á Hamborgar-árunum svokölluðu. Þetta lag ætti að vera í nokkuð reglulegri spilun í útvarpi, allavega á Bylgjunni.

“Too late for goodbyes” er í spilaranum hér til hægri.


Héðan og þaðan.... (uppfært)

Blogg-andinn kannski ekki alveg kominn yfir mann á nýja árinu. Kannski að smá hrærigrautur hjálpi til við að koma manni í gang.

Árið 2007 að baki og ekkert splönkunýtt svo sem komið inn á borð til mín, ekki ennþá allavega. Þar til að það gerist er best að skoða það sem fyrir er í safninu og leyfa ykkur að njóta.

mmj Sækadelíu indí-kantrýrokkararnir í My Morning Jacket (MMJ) eru miklir snillingar, platan þeirra "It still moves" frá árinu 2003 fær reglulega spilun hérna hjá mér enda afbragðs eintak þar á ferð. Platan "Z" frá árinu 2005 hitti ekki eins mikið í mark hjá mér, von er á plötu frá þeim í júní á þessu ári. Þeir sem hafa séð Bob Dylan-myndina "I´m not there" muna kannski eftir þeim í einu Richard Gere-atriðinna þegar þeir taka lagið "Tonight I'll Be Staying Here With You" (uppfært: það er bara Jim James frontmaður úr MMJ sem kemur við sögu og er það sveitin Calexico sem er með honum, þeir taka lagið "Goin' to Acapulco" en ekki "Tonight I´ll be staying here with you" rétt skal vera rétt! Uppgötvaði þessi mistök mín er ég las bloggið hjá Kidda rokk), þeir komu sterkir inn þar. Best að skjóta inn einu lagi með MMJ, flest allt er frábært af plötunni "It still moves" en upphafslagið ber af, "Mahgeetah".

Lagið "Mahgeetah" er í spilaranum hér til hægri.



[mæspeis]

nick_lucas_bob_dylan_12_64 Talandi um Bob Dylan, best að að láta eitt gamalt og gott af "Freewheelin´" flakka. "Oxford town" er mikil ádeila á aðskilnaðarstefnuna í USA, þarna er Dylan að taka fyrir eitt sérstakt atriði þegar fyrsti svarti háskólaneminn sem fékk inngöngu í Missisippi-háskólanum ætlaði að mæta í tíma, allt varð vitlaust í skólanum og við Oxford-kampusinn, átök brutust út, Kennedy forseti sendi herinn til að róa mannskapinn og tveir létust meira að segja í átökunum. Hræðilegur atburður en flott lag og meistaralegur texti.

"Oxford town" er í spilaranum hér til hægri.

[web]

Höldum okkur við aðskilnaðarstefnu og baráttusöngva. "Reiði er orka" segja Johnny Rotten og félagar í Public Image Limited í laginu "Rise" frá árinu 1986. Alltaf jafn hressandi að heyra þetta lag af plötunni "Album", þ.e.a.s. ef þú átt hana á vínyl, annars hét hún "Cassette" sem snælda, eða þá "Compact disc" á CD. Allavega, þetta koncept þeirra var ekkert nýtt, pönk/nojs sveitin Flipper frá San Francisco hafði víst gert þetta áður og voru síður en svo kátir með þetta framtak hjá PiL, svo óhressir voru þeir að næsta plata Flipper eftir þessa uppákomu hét "Public Flipper Limited".
PiL þykja með merkilegustu póst-pönk sveitunum, ég hef ekki girt kyrfilega niðrum þessa sveit en þessir helstu "hittarar" eru góðir, þá aðallega "Rise".

Lagið "Rise" er í spilaranum hér til hægri.



[John Rotten web]


11716-17012006145105 Per Vilhelm er danskur tónlistarmaður sem nemur bókasafns- og upplýsingafræði í Kaupmannahöfn, en þegar stund gefst á milli stríða semur hann tónlist og spilar í bandinu sínu Vilhelm. Vilhelm spilar þjóðlagaskotið kantrýrokk, svokallað "Americana" og gerir það einstaklega fagmannlega og sannfærandi. Eitthvað virðist fyrsta breiðskífan láta standa á sér en út kom þröngskífa fyrir nokkrum misserum síðan, sú skífa hét einfaldlega "Vilhelm EP" og inniheldur m.a. lagið "Burning ghost" sem er hreint afbragð. Vilhelm hefur fengið fína dóma á viðurkenndum netmiðlum í Danmörku en einhvern veginn virðist ekki vera markaður fyrir þessa tegund tónlistar í landi baunanna.

Lagið "Burning ghost" er í spilaranum hér til hægri.

[Mæspeis]

powersolo Höldum okkur við Danmörku, þar eru Íslandsvinirnir í Powersolo í góðu stuði. Fyrir þá sem ekki þekkja þá spilar þetta tríó rokkabillí, sörfskotið pönk og hafa þeir spilað þó nokkrum sinnum á Íslandi. Þeir gáfu síðast út plötu árið 2006 sem bar nafnið "Egg", sú plata fékk misjafnar viðtökur og skilur þannig séð ekki mikið eftir sig. Annað verður sagt um plötuna frá 2004 sem bar hið huggalega heiti "It´s raceday... and your pu**y is gut", þar eru góðir smellir, m.a. "Kat Nazer". Brakandi góðmeti.

Lagið "Kat Nazer" er í spilaranum hér til hægri.




[mæspeis]

Bestu erlendu plötur ársins 2007

Ég hef á síðasta ári skrifað smá greinarstúfa hér á bloggið og gefið hátt í fimmtíu breiðskífum einkunn, þetta hefur aðallega verið gert til gamans og dægrarstyttingar. Nú víst að árið 2007 er liðið er við hæfi að gera upp tónlistarárið og birta topp 10 yfir bestu erlendu plöturnar. Nú koma einkunnagjafarnir sér að góðum notum og eru þær gott viðmið þegar litið er um öxl og rýnt í tónlistarárið 2007. Topp tíu erlendu plötur ársins 2007 að mínum dómi eru:

#10 Easy tiger – Ryan Adams
Ryan_ADams_Easy_Tiger
Þessi plata fékk að rúlla óheyrilega oft í gegn á tímabili hjá mér á þessu ári, þetta er þægilegt kántrýskotið popp/rokk og margar góðar lagasmíðar hjá Ryan Adams. Þessi plata var í miklu uppáhaldi hjá mér á þessu ári, engin tímamótaplata en “solid” er hún.

Upphaflegur dómur: 8.0 [Mæspeis]

#9 Sheperd’s dog – Iron & Wine
Sheperd's-dog
Flott plata hjá Sam Beam, meiri hljómsveitarfílingur og elektróník en verið hefur en kassagítarinn aldrei langt undan. Meiri draumkennd í gangi en fyrr og gríðarlega heilsteypt kvikindi hér á ferð.

Upphaflegur dómur: 8.0 [Mæspeis]

#8 The Reminder – Feist
feist
Ætli þetta sé ekki útvarpsvænasta platan á listanum þetta árið og gæti flokkast undir FM-popp, ef svo er þá er þetta allavega FM-popp af dýrari sortinni. Það er eitthvað við hana Leslie Feist, skelfilega seiðandi og ljúf plata hjá henni sem ég fékk eiginlega ekki nóg af á árinu. Mörg lög á þessari plötu sem eru orðin klassíkerar.

Upphaflegur dómur: 8.0 [Mæspeis]

#7 Mirrored – Battles
battles
Skelfilega tormeltur en jafnfram stórkostlegur grautur. Þvílíkar pælingar, þeir félagar hafa greinilega legið yfir stærðfræði-formúlunum því þær eru nánast allar að ganga upp. Það þurfti sinn tíma í að melta þessa plötu, þetta er stórvirki.

Upphaflegur dómur: 8.0 [mæspeis]

#6 Plague park – Handsome Furs
handsome
Það þarf víst engin rakettuvísindi til þessa að búa til góða plötu. Gítar, söngur, synthar og trommuheili. Einfalt og hrátt. Gott eintak.

Upphaflegur dómur: 8.0 [Mæspeis]

#5 Neon Bible – Arcade Fire
neonbible300
Ekki auðvelt hlutskipti að fylgja eftir “The Funeral” en þessi plata er gríðarlega heilsteypt, fyrstu fjögur lögin eru frábær (sem og “No cars go” auðvitað, restin er góð. Ein af betri plötum ársins.

Upphaflegur dómur: 8.0 [Mæspeis]

#4 Cease to begin – Band of horses
band-of-horses
Verður bara betri við hverja hlustun, mörg ótrúlega “solid” lög á plötunni. Ég tók ástfóstri við þessa plötu og hún verðskuldar svo sannarlega sæti á topp 5.

Upphaflegur dómur: 8.5 [Mæspeis]

#3 Sound of silver – LCD Soundsystem
lcdsoundsystem_sound_of_silver
Urrandi gott kvikindi sem svei mér þá inniheldur tvö af betri lögum ársins, “Someone great” og “All my friends”. Hin lögin eru góð líka, varla veikan blett að finna og platan rennur snyrtilega í gegn. Uppgötvun ársins hjá mér allavega.

Upphaflegur dómur: 8.5 [Mæspeis]

#2 Grinderman – Grinderman
CDSTUMM272-300
Seint verð ég talinn vera Nick Cave-maður og skal ég fyrstur viðurkenna fákunnáttu mína á sögu hans og tónlist. En þessi plata Grinderman kom þvílíkt aftan að mér í árinu, ég hreifst af henni við fyrstu hlustun, hráleiki og “attitút” sem fær fólk eins og mig og þig til þess að míga í sig af geðshræringu. Klassa skífa.

Upphaflegur dómur: 9.0 [Mæspeis]

#1 Strawberry Jam - Animal Collective
fda839b55ff049abaabbb2095dea75d6_StrawberryJam
Yfirburða plata þessa árs, ég talaði um “Pet sounds” okkar tíma þegar ég ritaði um plötuna fyrr á árinu, ég fer ekkert ofan af því. Urrandi sköpunargleði hjá þessum frábæru listamönnum. Topp eintak. Besta erlenda plata ársins 2007. Hvernig væri svo að "stríma" snilldinni? Kíktu í tónlistarspilarann hér til hægri.

Upphaflegur dómur: 9.5 [Mæspeis]


Höfundur

My Music
My Music
Bloggað um tónlist.
Sendu mér línu: blogmymusic[at]gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband