Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
31.12.2007 | 12:28
Night falls over Kortedala – Jens Lekman [2007]
Ég var ekkert smá hrifinn af plötunni hans frá 2005, Oh you are so silent Jens, það var eitthvað svo ótrúlega ljúft og sannfærandi við þennan geðþekka unga Svía með silkimjúku röddina.
Nýja platan er að mörgu leyti heilsteyptari en sú fyrri þó hana vanti við fyrstu hlustanir eftirminnilega og afgerandi hittara. Það er engu til sparað, útsetningarnar eru miklar og útpældar, skemmtileg sömpl hér og þar og textarnir hallærislega einfaldir en samt eitthvað svo sannir. Ég sé fyrir mér að þessi plata eigi bara eftir að verða betri þegar fram líða stundir, það eru lög á henni sem hafa alla burði til þess að festast í heilabúi mínu (t.d. "The Opposite of Hallelujah" og "I'm Leaving You Because I Don't Love You"). Fín plata hér á ferð hjá Jens Lekman.
Hápunktar: "The Opposite of Hallelujah" og "I'm Leaving You Because I Don't Love You" (hlustið á lögin hér til hægri)
Einkunn: 8.0
Vídjó: "Shirin" (af plötunni spilað læv á tónleikum)
Leiðrétt 01.01.08: Platan heitir "Night falls over Kortedala" en ekki "Kortedela" eins og rangt var farið með upphaflega. Þakka góðar ábendingar.
Tónlist | Breytt 1.1.2008 kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.12.2007 | 12:28
Friend opportunity – Deerhoof [2007]
Það er tæpt ár síðan að þessi plata kom út og gott ef þetta er ekki sjöunda breiðskífa sveitarinnar, einhvern veginn hef ég aldrei gefið þeim almennilegan gaum og nennt að leggja mig fram við að hlusta á tónlist þeirra. Gárungarnir segja að þetta sé með því hlustendavænna sem þau hafa sent frá sér en þó má heyra nokkuð framúrstefnulegan og tilraunakenndan hljóm. Mér finnst þess plata nokkuð skemmtileg og fersk, krúttleg rödd Satomi Matsuzaki gefur þessu nokkuð framandi blæ og það er einhver undirliggjandi rokk/popp-söngleikjastemning í þessu hjá þeim sem virkar ágætlega. Þrátt fyrir þennan ferskleika og skemmilegheit þá hefur plötunni ekki tekist að festa sig í sessi í spilaranum mínum, það er eitthvað við hana sem fær mig til þess að nenna ekki að hlusta mikið á hana. Lagið +81 er fantagott lag, eitt af flottari lögum ársins 2007.
Hápunktar: +81 og The percect me (hlustið á lögin hér til hægri)
Einkunn: 7.0
Vídjó: "+81" (spilað læv í amerísku sjónvarpi)
[mæspeis]
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.12.2007 | 12:28
Hissing Fauna, are you the destroyer? – Of Montreal [2007]
Grípandi melódíur og afar viðkunnalegir kórusar er eitthvað sem hefur einkennt lög sem slegið hafa í gegn. Þessi breiðskífa Of Montreal-manna er uppfull af þannig lögum, lögin eru meira en bara grípandi, mörg þeirra eru bara þrusugóð. Kevin Barnes er potturinn og pannan í þessari sveit og þar er á ferðinni mjög athyglisverður tónlistarmaður, hann er með miklar pælingar á þessari konsept-breiðskífu sem fjallar um umbreytingu hans til alter-egósins og glamrokkarans Georgie Fruit.
Ég hef verið lengi að melta þessa plötu, renndi henni í gegn í haust og þá hreif hún mig alls ekki. Platan var sett á ís í nokkuð langan tíma og nú er hún farin að rúlla meira og ég farinn að fíla þetta meir. Það er margt virkilega gott á þessari plötu, skemmtilegar nálganir, hallærislega hressandi popp og nett geðveila í gangi í textasmíðunum. Ég er ekki alveg að meta þetta sem meistaraverk né snilld eins og margir vilja meina, það er kannski helst vegna þess hve seinni partur plötunnar slekkur mikið í þeim stemmara sem fyrri parturinn nær upp. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að þetta er gott stöff, ekki spurning.
Hápunktar: Cato as a pun og Heimdalsgate like a promethean curse (hlustið á lögin hér til hægri)
Einkunn: 8.0
Vídjó: "Suffer for fashion" (myndband við opnunarlag plötunnar)
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2007 | 02:51
Mugiboogie – Mugison [2007]
Gullkálfurinn Mugison er hér með gríðarlega þroskaða plötu, hún er virkilega vel gerð og skemmtilega lifandi innspiluð. Það eru engir aukvisar í kringum óskabarnið á þessu sinni og á það stóran þátt í því hversu heilsteypt og góð þessi plata er. Mugison er reyndar kominn á þann stað á sínum ferli að hann getur gert það sem honum sýnist, hann er skrambi sannfærandi strákurinn og hefur mikinn meðbyr á réttum stöðum hann hefur þetta í hendi sér. Ég var persónulega ekki að fíla Mugsion neitt sérstaklega vel í laptop-fílíngi, því er þessi plata að virka mjög vel á mig, þarna vil ég sjá hann og heyra, með hörkubandi og gott grúv í gangi. Fjölbreytnin á plötunni er gríðarleg og er það hennar helsti styrkur, t.d. miðað við síðustu plötu (Mugimama) sem var kannski nokkuð safe hvað varðar heildarsvip í samanburði við þessa. Þrusugóð plata hjá Mugison.
Hápunktar: The pathetic anthem og The Animal.
Einkunn: 8.5
Vídjó: The great unrest
[web]
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2007 | 02:06
Mirrored – Battles [2007]
Mikið hrikalega hefur verið erfitt að melta þetta stórvirki Batlanna, þetta afsprengi math-rokksins er ekki fyrir hvern sem er og getur verið ansi erfitt að fikra sig í gegnum stórbrotnar og oft á tíðum taktlausar lagasmíðar drengjanna. Því meira sem ég hef hlustað á þessa plötu því meira kann ég að meta hana. Ég þarf reyndar að vera í mjög sérstöku stuði fyrir þetta, þetta er ekki alveg sunnudagskvöldið með kaffibollann, þessi músík gruflar í hausnum á manni og það tekur á mann að meðtaka þessa mögnuðu hljóðbylgjur sem dynja á manni. Þetta er hljómsveit sem ég hreinlega verð að fá að sjá læv. Lagið Atlas er af mörgum talið vera sterkasta lag plötunnar og er ég nokkuð sammála, reyndar finnst mér Tonto vera mesta snilldin, hressandi grautur þar á ferð. Þessi plata er stórkostleg, ekki fullkomin og alls ekki allra að hlusta á.
Hápunktar: Atlas og Tonto
Einkunn: 8,0
Vídjó: Tonto
[mæspeis]
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2007 | 02:04
In rainbows – Radiohead [2007]
Ég var mjög hrifinn af sólóstöffi Thom Yorke frá því í fyrra (Eraser) og ég fílaði líka mjög vel gamla stöffið hjá Radiohead, það var minna af nýlega Radiohead efninu sem átti upp á pallborðið hjá mér, Kid A og Amnesiac voru ekki að ná mér fyrir utan einstaka lög. Þessi plata er einhvern veginn gamla góða Radiohead en samt árið 2007, Thom Yorke fær sína elektrónísku fullnægingu annars staðar en fær þess í stað að láta rokkið (með smá dass af elektróník) leika lausum hala á ný með félögum sínum. Lagið Nude er t.d. strax orðið að Radiohead klassíker, Reckoner hljómar kunnuglega (sem sagt Radiohead-legt) og rúsínan í pylsuendanum er hið mjög svo áhrifaríka lag Videotape. Þetta er ágætis plata, rennur smurt í gegn og venst einstaklega vel. Það má svo auðvitað deila um hvort að þessi stefna sveitarinnar sé rétt, hefðu þeir átt að halda áfram tilraunsstarfsemenni eða var orðið tímabært að fá gamla góða Radiohead til baka? Að þessu sinni hallast ég að því síðast nefnda en vil endilega sjá þá experimenta meira í framtíðinni.
Hápunktar: Nude og Videotape.
Einkunn: 7.5
Vídjó: Videotape
[mæspeis]
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2007 | 02:03
Sound of silver – LCD Soundsystem [2007]
Ég vil byrja á því að biðja James Murphy afsökunar á því að dæma hann svona fyrir fram, ég var búinn að stimpla tónlist hans sem einhvern töflubryðjandi og svitahnykkjandi viðbjóð. Ég hef aldrei verið mikið fyrir dansmúsíkina (reyndar valdi ég The Warning með Hot Chip plötu ársins í fyrra), hingað til hef ég hlustað meira á alvarlegri músík en þessi plata kom mér gjörsamlega í opna skjöldu. Urrandi gott kvikindi sem svei mér þá inniheldur tvö af betri lögum ársins, Someone great og All my friends. Hin lögin eru góð líka, varla veikan blett að finna og platan rennur snyrtilega í gegn. Þetta er án efa ein af bestu plötum ársins. James Murphy er greinilega snjall tónlistarmaður, einhvers staðar las ég að hann væri mjög svo anlógískur, vill helst hafa allt ekta og er lítið fyrir feika hljóðin sem hann notar. Þetta gerir pakkann bara enn meira sannfærandi.
Hápunktar: Someone great og All my friends.
Einkunn: 8.5
Vídjó: "All my friends"
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2007 | 09:01
Gleðileg jól
Jólalög ársins í ár eru án efa með Stafrænum Hákon og Unstatuesque (áður Dialect).
Merry Christmas Mr. Lawrence - Stafrænn Hákon & Unstatuesque
White Christmas - Stafrænn Hákon & Unstatuesque (feat. Magnús Freyr)
Virkilega skemmtileg nálgun hjá þessum frábærum listamönnum. Hvar man ekki eftir "Hva' þekkja þeir ekki jólin?" sem Stafrænn Hákon og Dialect gerði hér um árið, þeir sem misstu af því stórvirki geta nálgast það hér:
Hva' þekkja þeir ekki jólin - Stafrænn Hákon
[mæspeisið hans SH] [SH web]
Tónlist | Breytt s.d. kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2007 | 17:43
Dapurt plötuumslag: Sell Sell Sell - David Gray
Ég hef nú lengi verið nokkur aðdáandi David Gray, sérstaklega "early" stöffið hans og svo "White Ladder", sem er náttúrulega brakandi gott kaffi. En þetta plötuumslag, fyrir plötuna hans "Sell sell sell" frá árinu 1996, er gjörsamlega glatað. Þarna er David væntanlega að skírskjóta í hið erfiða kapphlaup um hylli neytenda þegar kemur að plötusölu. Það hefði örugglega verið hægt að útfæra þetta öðruvísi og kannski ekki alveg svona hallærislega. Hvað er málið með verðmiðana á "Buddy Holly"-gleraugunum?
Reyndar er eitt nokkuð gott lag á þessari plötu, það er "Late night radio". Það er í spilaranum hér til hægri.
[heimasíða DG]
Þetta minnir mig auðvitað á fleiri döpur plötuumslög, en fyrir áhugasama þá er þessi síða nokkuð góð, reyndar miklar öfgar þar og lítið um þekkta flytjendur. Hvar man t.d. ekki eftir þessu hræðilega koveri?
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.12.2007 | 12:49
The Stage names – Okkervil River [2007]
Fjórða breiðskífa Okkervil River kom út núna í lok sumars, ég tók fyrst eftir þessu bandi þegar þeir gáfu út Black sheep boy árið 2005 og þótti mér nokkuð til þeirra plötu koma á þeim tíma. Þessi plata inniheldur hresst en mjög innihaldsríkt indírokk í bland við nokkur falleg og róleg lög. Með þessari plötu er Okkervil River að stimpla sig inn sem band sem vert að er að gefa gaum og taka mark á - þeir munu framvegis ekki koma skemmtilega á óvart eða gjörsamlega aftan að fólki með útspil sínu, þeir eru komnir upp í efri deildirnar í þessum bransa.
Flest ef ekki öll lögin á plötunni eru mjög svo áheyrileg og fín. Opnunarlagið Our life is not a movie or maybe er slagari ef dýrari sortinni og hlýtur að teljast eitt af erlendu lögum ársins. Stórvirki plötunnar er lagið Plus one, fyrir utan að vera flott lag þá er textinn gríðarlega góður og vel heppnaður. Þar er verið að vitna í mörg af frægustu lögum tónlistarsögunnar sem innihalda tölur, en Okkervil River bætir alltaf einum við (Plus one) og tvinnar það skemmtilega saman við textann.
Og þá yfir það neikvæða, eins góð og áheyrileg platan er þá fékk ég óvenju fljótt leið á henni. Ástæðuna tel ég vera að uppbyggingu plötunnar, fimm fyrstu lögin eru virkilega góð, þrjú fyrstu af þeim eru í hressari kantinum, svo koma tvö róleg sem eru reyndar virkilega góð. Þar á eftir, í stað þess að hressa þetta aðeins við halda þeir áfram á easy nótum og platan nánast fjarar út ekki að lögin séu slök, þau eru bara frekar gleymanleg. Ef það væri ekki fyrir skemmtilega samsuðu í lokalaginu (þar sem Sloop John B með Beach Boys er skotið inn) þá væri seinni parturinn hreinlega ekki nógu góður. En heilt yfir er þetta ágætis plata sem vert er að hlusta á.
Hápunktar: Our life is not a movie or maybe, A hand to take a hold on the scene, Savannah smiles og Plus One. (Hlustið á þessi fjögur lög í spilaranum hér hægra megin á síðunni)
Einkunn: 7.0
Fróðleiksmoli: Í laginu Plus one, sem ég tala um hér fyrir ofan, eru nokkur af merkari lögum tónlistarsögunnar sem bera tölustaf(i) í lagaheitinu nefnd. Meðal þeirra sem nefnd eru: 50 ways to leave your love með Paul Simon, 99 Luftballoons með Nenu, Eight miles high með Byrds og 7 Chinese brothers með REM.
Vídjó: Our life is not a movie or maybe
[mæspeis]
Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar