Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Söngvaskáld: Pétur Ben og Ólöf Arnalds

Mæli með þessari þáttaröð á RÚV, nú í gær spilaði Ólöf Arnalds og í síðustu viku var það Pétur Ben.

Hér er beinn linkur í þáttinn með Pétri, en hér með Ólöfu. Virkilega gott framtak hjá RÚV!

Airwaves 2007 - ég mæli með.....

2006102910285850.orgNú er níunda Iceland Aiwaves-tónlistarhátíðin senn að hefjast og finnst mér læn-uppið sjaldan eða aldrei verið jafn spennandi. Mjög góð þróun hjá Örlygsmönnum undanfarin ár að fækka erlendu feitu bitunum og fjölga þessum minni, óþroskuðu og oftast safaríkari bitum, bæði erlendum og innlendum.

Kostur og galli þessarar hátíðar er að það er allt of mikið af góðu stöffi í boði, maður nær aldrei að sjá allt. Ég ætla að gera heiðarlega tilraun í þessari færslu til að setja saman dagskrá sniðna að því hvaða flytjendur ég vil helst sjá, það gefur auðvitað augaleið að einhvern tímann munu tvö bönd sem ég fíla spila á sitthvorum staðnum á sama tíma.. þá er bara að velja og hafna. Í þessum "ég-mæli-með"-lista er ekki gert ráð fyrir neinum gríðarlegum ferðatíma á milli staða, listinn gerir ráð fyrir að ég fljúgi inn á alla staði og þurfi hvergi að bíða í biðröð! Sem sagt, þessi listi er mjög óraunhæfur.

Miðvikudagur 17. október
Þetta er kannski sísta kvöldið af öllum en engu að síður er eitt og annað sem gaman væri að kíkja á. Reikna með að byrja kvöldið á Barnum og vippa mér svo yfir á Organ, fara svo á sveittan Grand Rokk og reyna að ná síðasta bandinu á NASA.

20:00 BARINN - DJ Bobby Breiðholt (IS), bloggari með hressandi tónlistarsmekk.
21:00 ORGAN - B.Sig (IS), köntrýrokk og ról
21:45 ORGAN - Múgsefjun (IS), þjóðlagapopp/rokk og sungið á íslenzku
22:30 ORGAN - Solid Gold (US), hressir og ósamningsbundnir, eitt af þeim böndum sem ég bloggaði um fyrir nokkru síðan og fannst spennandi (sjá færslu hér).
23:15 GRAND ROKK - Vicky Pollard (IS), heitt og nýtt, þykja góð á sviði, spennandi. 
00:00 NASA - Shadow Parade (IS), gríðarlega melódískt, hef séð þá læv áður og líkaði vel.

[mp3] Kalin slóð - Múgsefjun (IS)
[mp3] Neon rose - Solid Gold (US)
[mp3] Tender demand - Vicky Pollard (IS)

Bönd sem ég hefði líka viljað sjá þetta kvöld:
22:30 NASA -
Soundspell (IS), eitt efnilegasta bandið á klakanum í dag

[öll dagskráin 17. okt]

Fimmtudagur 18. október
Nú vandast málið, fullt af helling af flytjendum sem ég vil ná að sjá þetta kvöldið. Læt skynsemina ráða og nenni ekki allt of miklu flakki... það þýðir reyndar að maður mun missa af einhverju hressandi og góðu.

21:00 LISTASAFNIÐ - Jenny Wilson (SE), sænska gyðjan komst ekki í fyrra, kjörið tækifæri til þess að sjá hvað í hana er spunnið.
22:00 IÐNÓ - Ólöf Arnalds (IS), hún er smergjuð. Frábær læv, góðar lagasmíðar og hnittnir textar. Möst sí!
23:00 LISTASAFNIÐ - Grizzly Bear (US), eitt af mest spennandi hedlænum hátíðarinnar. "Yellow house" frá 2006 hefur unnið mikið á síðan ég heyrði hana fyrst.
00:00 NASA - Late of the pier (UK), blanda af Daft Punk og Flaming Lips? Vonarstjörnur Breta fá "breik" hjá mér, þetta á víst að vera gríðarlega hressandi.

[mp3] Let my shoes lead me forward - Jenny Wilson (SE)
[mp3] Í nýju húsi - Ólöf Arnalds (IS)
[mp3] Knife - Grizzly Bear (US)
[mp3] Bedroom gurgle - Late of Pier (UK)

Bönd sem ég hefði líka viljað sjá þetta kvöld:
21:15 IÐNÓ -
My summer as a salvation soldier (IS), skemmtilega naív, stundum svolítið pirrandi rödd og óhugglega einsleitir textar... en það er eitthvað við kappann sem heillar.
21:30 NASA -
Retro Stefson (IS), hrikalega efnilegt band hér á ferð. Dauðlangar að sjá þau læv.
22:45 IÐNÓ -
Valgeir Sigurðsson (IS), það er meira en lítið lofið sem kappinn hefur fengið að undanförnu. Er fótur fyrir þessu? Það væri gaman að athuga þetta.
23:00 LÍDÓ -
Sprengjuhöllin (IS), óskasynir þjóðarinnar? Vinsældir þeirra ætla engan enda að taka.
23:15 GRAND ROKK -
Royal Fortune (IS), hef reyndar bara heyrt eitt lag en það var drullugott. Rólegheita köntrýpopp.
00:00 ORGAN -
Khonnor (US), elektró-undrabarn, væri gaman að ná í skottið á þessum.

[öll dagskráin 18. október]

Föstudagur 19. október
Best að vera á "stóru" stöðunum þetta kvöldið. Byrja samt í huggulegheitum í Fríkirkjunni, síðan verður flakkað á milli Landsímahússins og Hafnarhússins.

18:40 FRÍKIRKJAN - Siggi Ármann (IS), uppgötvaður af Sigtryggi Baldurs og Jóhanni Jóhanns, hæpaður af Sigur Rós... Siggi Ármann finnur ekki upp hjólið með tónlist sinni en þetta er einfalt og þægilegt.
19:20 FRÍKIRKJAN - Steintryggur (IS) + Ben Frost (AUS), Steintryggsmenn eru mjög skemmtilegir læv og það væri fróðlegt að sjá Ben Frost grúska í sándinu þeirra.
21:30 NASA - Skakkamanage (IS), þau eru krúttleg en jafnframt helvíti góð, "Lab of love" frá því í fyrra er bara nokkuð góð. Ég á það til að renna henni í gegn endrum og sinnum, sem er vel.
23:00 LISTASAFNIÐ - Múm (IS), er enn að melta nýju plötuna, dauðlangar að sjá þau performa þetta læv og einnig sjá hvernig flokkurinn kemur undan þessum mannabreytingum.
00:00 LISTASAFNIÐ - Of Montreal (US), þeir eru alltaf að vinna á hjá mér, kannski toppa þeir þetta kvöldið?
01:15 NASA - Ghostigital (IS), eitt besta og skemmtilegasta læv band landsins (ásamt Dr. Spock m.a.), hljóðveggur, áreiti, smá pirringur, gleði, gott bít, jafnvel eyrnatappar..... þetta er snelld.

[mp3] I dive - Siggi Ármann (IS)
[mp3] Tuta groove - Steintryggur (IS)
[mp3] None smoker - Skakkamanage (IS)
[mp3] They made frogs smoke 'til they exploded - Múm (IS)
[mp3] Heimdalsgate Like A Promethean Curse- Of Montreal (US)
[mp3] Crackers (Plúseinn-remix) - Ghostigital (IS)

Bönd sem ég hefði líka viljað sjá þetta kvöld:
22:45 LÍDÓ -
Pétur Ben (IS), frábær performer þessi drengur, alltaf gaman að sjá hann læv.
23:00 NASA -
Motion Boys (IS), langar að sjá hvort að þeir geti eitthvað á sviði.
23:30 LÍDÓ -
Tremelo Beer Gut (DK/SE), skandinavískt surf-rokk, þeir eru sveittir og þéttir á sviði.
23:30 ORGAN -
Singapore Sling (IS), þeir geta verið góðir læv, en þeir geta líka sökkað læv. Væri fróðlegt að sjá Slingarana.
00:15 LÍDÓ -
Heavy Trash (US), hressandi rokkabillý með Jon Spencer og Matt Verta-Ray.

[öll dagskráin 19. október]

Laugardagur 20. október
Þetta er langsamlega stærsta kvöldið og erfiðast að velja. Í hinum fullkomna heimi þar sem allt gengur upp og engar biðraðir eru þá lítur planið svona út:

18:00 FRÍKIRKJAN - Amiina (IS), hef mikla trú á að Amínurnar muni ná upp góðri og notalegri stemningu í Fríkirkjunni. Tónlist þeirra er sniðin fyrir svona venjú.
20:00 GAUKURINN - Bertel! (IS), eftir kirkjulega athöfn er gott að hressa sig við með hressum strákum af Nesinu. Bertel! Ég hef trú á því bandi.
21:30 GAUKURINN - Ultra Mega Technobandið Stefán (IS), eru þeir geðveikir læv? Er þetta must sí? Það er eitthvað sem segir mér að svo sé. 
22:15 NASA - Mugison (IS), mér finnst Mugison einn og óvaldaður á sviði vera jaa... drepleiðinlegt. Með bandi er hann hins vegar kapituli út af fyrir sig.
23:00 LISTASAFNIÐ - Annuals (US), eitt af áhugaverðustu erlendu nöfnunum í ár.
00:30 LÍDÓ - Snake & Jet´s Amazing Bullit Band (DK), ef þú missir af þessu áttu eftir að berja hausnum við vegg svo sólarhringunum skiptir! Ef að LÍDÓ verður ekki troðfullur á þessum tíma og biðröð niður Ingólfsstræti að Bankastræti þá skal ég hundur heita.
01:45 NASA - Dr. Spock (IS), eitt besta og skemmtilegasta læv band landsins í dag (ásamt Ghostigital m.a.), þetta er sirkus, þetta er bíó, þetta er upplifun.

[mp3] Rugla - Amiina (IS)
[mp3] He man - Bertel! (IS)
[mp3] Sad as a truck - Mugison (IS)
[mp3] Complete or completing - Annuals (US)
[mp3] Favourite - Snake and Jet's Amazing Bullit Band (DK)

Bönd sem ég hefði líka viljað sjá þetta kvöld:
21:30 LISTASAFNIÐ -
Hjaltalín (IS), kammerpopp og menntasnobb, mjög fær hljómsveit hér á ferð.
21:30 GRAND ROKK -
Stafrænn Hákon (IS), Ólafur ásamt hljómsveit það er alltaf gott, ég hefði sett´ann á betra venjú, held að þetta sé ekki að fúnkera á Grand Rokk.
21:30 NASA -
Dikta (IS), langar að sjá þessa drengi á tónleikum.
22:15 IÐNÓ -
Seabear (IS), hvíslarinn knái hann Sindri er sniðugur tónlistarmaður, semur fínar melódíur og nýja platan er ágæt.
23:00 IÐNÓ -
Benni Hemm Hemm (IS), "ég á bát og ég á árar...." er frábært lag, BHH er alls ekki allra en mikið sjóv að sjá læv.
00:00 NASA -
!!! (US), þetta á víst að vera einstaklega hressandi læv, allavega er stemning á plötunum þeirra.
00:00 GAUKURINN -
Chromeo (CA), skemmtilega hallærislegt, munið eftir grifflum og "glowsticks". 
01:00 GAUKURINN -
FM Belfast (IS), ótrúlega skemmtileg læv, mikill stemmari.

[öll dagskráin 20. október]

Sunnudagur 21. október

Eins og dagskráin lítur út í dag þá er ekkert sem freistar mín á sunnudagskvöldinu. Maður veit þó aldrei hvað Airwaves-menn hafa upp á að bjóða í hinum svokölluðu "airwaves selection - surprise act" en það verða tvö slík bæði á ORGAN og á GAUKNUM.

[öll dagskráin 21. október]

Off-venue
200511813443850.orgSvo er vert að fylgjast með alls kyns uppákomum í borginni tengt Airwaves. Plötubúðirnar eru margar hverjar með athyglisverða innanbúðartónleika. 12 Tónar tefla t.d. fram Ólöfu Arnalds, Snake and Jet's og Annuals. Í Norræna húsinu er mjög öflugt prógram, fjöldinn allur af litlum tónleikum, m.a. Sprengjuhöllin, Lay Low, Jenny Wilson, Ólöf Arnalds, Seabear, Benni Hemm Hemm, Snake and Jet´s og Motion Boys.

[Heimasíða Iceland Airwaves] [Blogg Örlygsmanna]


Strawberry Jam - Animal Collective [2007]

Strawberry_jam_high_res_coverÁttunda breiðskífa Animal Collective-flokksins er hreint út sagt frábær! Fyrir mér er þetta þriðja breiðskífa sveitarinnar, ég kom fyrst um borð árið 2004 á plötunni "Sun tongs" sem mér finnst vera mjög góð, "Feels" kom svo árið 2005 og hana var ég ekki að fíla neitt sérstaklega. Sama ár kom út EP-platan "Prospect hummer" í samstarfi við költið Vashti Bunyan, ekki var það neitt spes.

Þessi plata, "Strawberry jam", er mögnuð frá upphafi til enda. Ég ætla að ganga svo langt að segja að þetta sé Pet Sounds okkar tíma. Þarf ég að segja eitthvað meira? Þetta er melódísk og ákaflega vel skipulögð ringulreið, stórbrotnar lagasmíðar, magnaðar útsetningar, sköpunargleði og ævintýramennska af dýrari sortinni, raddanir og raddútsetningar í "ruglinu" (þ.e. flottar)  - það er sko erfitt að setja verðmiða á þessa breiðskífu. Þetta er besta plata ársins til þessa (af þeim sem ég hef heyrt auðvitað!). Ef þú ætlar bara að kaupa þér eina plötu á þessu ári, kauptu þá "Strawberry Jam".

Hápunktar: "Peacebone", "For Reverend Green", "Fireworks" og "#1". (lögin eru öll í spilaranum hér hægra megin ->)

Einkunn: 9.5

Fróðeiksmoli: Avey Tare syngur megnið af lögunum á þessari plötu en vanalega skipta þeir félaganir, hann og Panda Bear, þessu þokkalega bróðurlega á milli sín. Þess má geta að Avey þessi, sem heitir reyndar David Portner, er giftur hinni íslensku Kristínu Önnu Valtýsdóttur. En Kristín var jú áður í Múm.

Vídjó: Animal Collective taka lagið "#1" í þætti Conan O'Brien.


[web] [mæspeis] [jútjúb]


Íslenskir flytjendur á ferð og flugi

Það eru margar íslenskar sveitir á ferð og flugi þessa dagana enda er haustönnin oftast blöstuð í tónleikahaldi um allan heim. Margar íslenskar sveitir nýta tækifærið í aðdraganda Airwaves til þess að túra um Evrópu og þessar stærri eru að fylgja á eftir plötum og/eða heimildarmyndum. Ég ákvað að grennslast fyrir um fjórar íslenskar sveitir og tjékka statusinn á þeim.

Amiina - Ítalía, Þýskaland Danmörk, Airwaves, UK.
amiina Amínurnar eru að fylgja eftir plötunni "Kurr" sem kom út í vor. Þeir urðu að fresta USA-túrnum sem átti að vera í haust vegna veikinda en eru víst hressar núna og túra um Evrópu. Þær spila síðan "off-venue" tónleika á Airwaves, í Fríkirkjunni laugardaginn 18. október. Það gæti orðið athyglisvert. Mér skilst að þær séu komnar með aðeins fleiri bringuhár, því þær fengu til liðs við sig karlkyns trommara fyrir þennan túr.

[mp3] Rugla - Amiina

Lagið "Rugla" af plötunni "Kurr" hefur fengið ágætis spilun hér og þar. Platan "Kurr" hefur fengið þokkalega dóma, ég gaf til að mynda plötunni 7.0 á sínum tíma.

[Túrplanið hjá Amiinu] [mæspeis]

Jakobínarína - UK, Airwaves, Evrópa, Skandinavía, UK
Jakobinarina2 Óskabörn þjóðarinnar í Jakóbínurínu túra massívt þessa dagana. Þeir eru í þessum skrifuðu orðum á túra um Bretland sem upphitunarband fyrir The Cribs. Svo er það Airwaves og túrinn heldur áfram um Þýskaland, Sviss, Austurríki, Holland og Frakkland sem upphitunarband fyrir Kaiser Chiefs. Inn á milli gigga detta þeir til Skandinavíu í þrjú gigg. Eftir supportið fyrir Kaiser Chiefs þá túra þeir um Bretland aftur og taka nett 16 gigg á 18 dögum. Brjálað að gera hjá hafnfirsku drengjunum.


[mp3] This is an advertisment - Jakobínarína

Í laginu segir m.a.: ”We would even change our name / to the Coca Cola band / just to get our pockets filled", skemmtileg ádeila á tónlistariðnaðinn. Þetta lag er auðvitað af plötunni "The First Crusade".

[Túrplanið hjá Jakobínurínu] [mæspeis]

Stafrænn Hákon - UK og Airwaves
shakon Eins manns verkefnið Stafrænn Hákon túrar um Bretlandseyjar þessa dagana og er Ólafur að þessu sinni með fjögurra manna band sér við hlið. S. Hákon stoppar við í borgum eins og Brighton, Bristol, Newcastle, Oxford og auðvitað Lundúnum. Nokkuð merkilegt gigg hjá þeim annað kvöld í Bristol en þar hita þeir upp fyrir ekki ómerkari tónlistarkonu (mann?) en Baby Dee. Hann/hún er mikið költ og tilheyrir N.Y.-senunni svokölluðu ásamt Antony Hegarty (and the Johnsons) og Joan as a police woman o.fl.

Túrinn endar svo á Airwaves hátíðinni heima á Fróni aðra helgi. Sá reyndar að S. Hákon mun spila á laugardagskvöldinu á Grand Rokk og meðal banda það kvöldið á þeim stað eru Sickbirds, Johnny and the Rest, Soth Coast Killing Company, Hellvar, Noise, Dýrðin, Ég og Hookerswing. Set stórt spurningamerki við þennan hrærigraut á Grand Rokk! Með fullri virðingi fyrir þessum sveitum þá virðist Grand Rokk ár eftir ár vera hrærigrautur fyrir þau bönd sem Airwaves-menn finna ekki samastað.

[mp3] Þurr Þurr - Stafrænn Hákon

Þetta er lagið "Þurr Þurr" af plötunni "Gummi" sem kom út á þessu ári. Söngurinn er í höndum Daniel Lovgrove (Dialect), en Daniel þessi er trommari og er á sama leibeli og S. Hákon, Resonant. Ég gaf "Gumma" 8.0 í einkunn á sínum tíma

[Túrplanið hjá Stafrænum] [mæspeis]

Sigur Rós - Kaupmannahöfn og London
sigur_ros_080905_med_20050908_top Sigur Rósar-menn eru á kynningartúr fyrir heimildarmyndina "Heima" og hafa farið um víðan völl. Ekki eru þeir að troða mikið upp eftir því sem ég best veit en reyndar munu þeir halda litla eksklúsíva og akústíska tónleika í Kaupmannahöfn í næstu viku. Tilefnið er kvikmyndahátíðin CPH DOX en föstudaginn 17. október verður prógrammið fyrir hátíðina kynnt og myndin "Heima" forsýnd. Sigur Rósar-menn munu spila nokkur lög áður en myndin verður sýnd, þetta fer fram á tónleikastaðnum VEGA.

Sé reyndar á mæspeisi sveitarinnar, á meðan þetta er skrifað, að svipað verður uppi á teningnum viku síðar í Lundúnum, þá verður "Heima" sýnda á BBC Electric Proms Films 07 og svo mun sveitin spila stutt akústískt sett.

Svo sé ég líka á einu tónlistarblogginu að þeir héldu svona akústískt sett í Helsinki fyrir skemmstu, þannig að þeir eru þannig séð að túra með þetta litla hálftíma akústíska sett.

[mp3] Njósnavélin - Sigur Rós (læv og akústískt í Helsinki í lok september 2007)
[mp3] Heima - Sigur Rós (læv og akústískt í Helsinki í lok september 2007)
[mp3] Ágætis byrjun - Sigur Rós (læv og akústískt í Helsinki í lok september 2007)

Lögin hér fyrir ofan eru öll af þessum örtónleikum þeirra í Helsinki í lok september á þessu ári. Virkilega flottar útsetningar hjá þeim, sérstaklega "Njósnavélin" og "Ágætis byrjun", gott stöff.

[örtónleikar í VEGA] [mæspeis]

Ýmislegt
Það eru eflaust fleiri íslensk bönd að túra í augnablikinu og á næstunni. Ég veit að Pétur Ben túraði um Danmörku ásamt bandi núna á dögunum og Ólöf Arnalds hitaði upp fyrir giggið hans í Kaupmannahöfn. Jóhann Jóhannsson spilar í Frakklandi í nóvember og einhvers staðar las ég eða heyrði að hann muni einnig spila í Kaupmannhöfn í nóvember og hin umtalaða (sjá fyrir ofan) Baby Dee muni einnig stíga á stokk við sama tilefni.

Fjöldinn allur af íslenskum flytjendum mun koma fram á tónlistarhátíðinni From Reykjavik to Rotterdam í Hollandi í nóvember. Má þar nefna Amiinu, Apparat Organ Quartet, Ghostigital, Seabear, Múm, Hafdísi Huld, HAM o.fl. Hátíðin er haldin í Rotterdam dagana 21.-24. nóvember. Ghostigital spilar á listahátíðinni "Crossing border" í Haag þarna rétt á undan hátíðinni í Rotterdam. Þetta er tónlistar, lista, kvikmynda, ljóða....-hátíð og mun vera sérstakt íslenskt svið (eða salur?) þarna eitt kvöldið, sviðið/salurinn mun heita "Badstofa" og þar mun, auk Ghostigital, Ólöf Arnalds koma fram. Af stórum útlendis tónlistarnöfnum á þessari hátíð má t.d. nefna Rufus Wainwright, Akron/Family, Loney Dear, Okkervil River, The New Pornographers, Andrew Bird, Black Rebel Motorcycle Club, Patti Smith, Soko og Super Furry Animals.

Ghostigital taka greinilega þrjú festivöl á þremur dögum því strax á eftir Amsterdam er það Nordwin Festival í Berlín. Engar upplýsingar eru að finna um dagskrá á síðu hátíðarinnar, en þetta er sem sagt tónlistar- og listahátíð fyrir norræna flytjendur. Athyglisvert.

Múm halda í Ameríkutúr strax á eftir Airwaves og svo beint í Evróputúr. Seabear slæst í för með Múm á Evróputúrnum og mun hita upp fyrir Múm-flokkinn. Mugison spilar bæði í Kaupmannahöfn og í Árósum í nóvember.

Skv. mæspeisinu hennar Lay Low þá er hún að fara í Bretlandstúr í lok nóvember, ein ellefu gigg á 12 dögum og við erum að tala um borgir eins og Colchester, Bristol, Exeter, Brighton, Glasgow og Manchester svo einhverjar séu nefndar. Spurning hvort að frammistaða hennar á The Great Escape í Brighton síðastliðið vor sé að skila sér?

Krúttlegt?

Fánaberar krúttkynslóðarinnar eru ekki alveg að standa sig í PR-málunum. Var þetta viðtal ákveðið í óþökk þeirra eða voru þeir bara illa fyrirkallaðir? Sumum finnst þetta ákaflega krúttlegt og "artí" en mér finnst þetta barnalegt og gríðarlega ófagmannlegt. Voru þeir ekki að kynna nýju heimildarmyndina?

Tek það fram að ég er þó nokkur aðdáandi sveitarinnar en mér finnst þetta óskaplega döpur frammistaða í viðtali. Þeir hafa sjálfir talað um hvað þeir séu þreyttir á öllu þessu álfa- og tröllatali hjá erlendu tónlistarpressunni, hvað þeir séu öðruvísi og skrýtnir, hvað náttúran endurspeglist í tónlistinni...... en hvernig er annað hægt þegar menn annað hvort þegja eins og klettar eða koma eins og álfar úr hverjum hólnum á fætur öðrum í viðtali eins og þessu?


mbl.is Sigur Rósarmenn ekki skrafhreifnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mixteip: Airwaves 2007, annar hluti - íslenskt

200772611474450.org Styttist enn meira í Airwaves og því um að gera að henda í eina blöndusnældu. Að þessu sinni koma fimm lög með þeim ungu og upprennandi íslensku flytjendum sem mér finnst persónlulega vera mjög spennandi og mun reyna að sjá á þessari hátíð. Þetta er bara slembivalið brot af því besta. Hægt er að hlusta á þetta fimm-laga mixteip hér í spilaranum hægra megin. Mixteipslögin eru merkt B-Mix#1 til 5.


#1 Sunshine & Lollypopps - Bertel! (IS)
Það eru fjórir hressir Seltirningar sem skipa þessa sveit, Bertel! Tóku þátt í músíktilraunum árið 2004, þá rétt um 14-15 ára gamlir og komust í úrslit. Heyrði fyrst í þeim nýlega þannig að ég þekki ekki forsöguna en fróðir menn segja að tónlistarstefna sveitarinnar hafi breyst mikið á þessum þremur árum. Þetta lag er skrambi gott, skemmtilega poppaðuar Apparat-fílingur í gangi og ef hitt stöffið er í áttina þá væri alveg þess virði að kíkja á þá.

[Hvar og hvenær: Lau 20. okt - Gaukurinn - 20:00] [Bertel ! á mæspeis]

#2 Papa Paulo Terzo - Retro Stefson (IS)
Þetta band hefur verið hæpað mikið að undanförnu enda eitt efnilegasta band sem komið hefur á sjónarsviðið síðustu árin þó víða væri leitað. Skemmtileg samsuða af "internasjonalítetum" úr Austurbæjarskólanum og verður gaman að sjá hvort að það koma meira ferskt og hressandi tónlistarlega séð úr því skemmtilega umhverfi. Hef því miður ekki séð þau læv en vonandi verður úr því bætt á Airwaves þetta árið. Tónlistarstefna sveitarinnar hefur verið skilgreind sem "retró-latín-sörf-soul-powerpopp". Spennandi.

[Hvar og hvenær: Fim 18.okt - NASA - 21:30] [Retro á mæspeis]

#3 Broken heart blues - Royal Fortune (IS)
Veikleiki minn fyrir fallegum melódíum þar sem kassagítar og angurvær rödd leika aðalhlutverkin er mikill, Royal Fortune sá ég fyrst í Kastljósinu síðasta vetur og fannst mér þeir nokkuð góðir. Óhjákvæmilega minnir þetta mikið á Without Gravity (áður Tenderfoot), það eru líka þó nokkur Nick Drake áhrif í gangi... en þetta lag grípur mig og fær mig til þess að vilja heyra meira. Um það snýst þetta víst. Veit ekkert um sveitina, spiluðu víst líka á Airwaves í fyrra.

[Hvar og hvenær: Fim 18.okt - Grand Rokk - 23:15] [Royal Fortune á mæspeis]

#4 Story of a star - Ultra Mega Tecno Bandið Stefán (IS)
Eitt það ferskasta og skemmtilegasta sem fram hefur komið á íslensku senunni síðustu misserin. Ég á ennþá eftir að sjá þessa drengi læv og get hreinlega ekki beðið. "Story of a star" er hrikalega hressandi slagari, og ég sem hélt að "Cockpitter" yrði seint toppað, þetta lag er á góðri leið með að gera það hjá mér allavega.

[Hvar og hvenær: Lau 20.okt - Gaukurinn - 21:30] [UMTBS á mæspeis]

#5 Við og við - Ólöf Arnalds (IS)
Ólöf er ný, ung og upprennandi fyrir ansi mörgum. Það sem kannski færri vita er að hún hefur unnið með tónlistarmönnum eins og Mugison, Slowblog og Skúla Sverris. Hún hef verið hluti af múm-flokknum í nokkur ár en komst fyrst almennilega í spottlætið á síðasta ári með plötunni "Við og við". Sú plata hefur aldeilis unnið á hjá mér, fannst þetta óttarlega pirrandi fyrst en eftir að ég sá hana tvisvar spila læv á skömmum tíma þá hef ég kolfallið fyrir þessari frábæru tónlistarkonu. Titillag plötunnar er frábært og textinn virkilega flottur.

[Hvar og hvenær: Fim 18.okt - Iðnó - 22:00] [12 tónar á mæspeis]

Eins og margir hafa tekið eftir þá er búið að staðfesta dagskrána á Airwaves þetta árið og svona lítur hún út.

Einnig vil ég benda á hressandi mixteip hjá Dr. Gunna, þar er hann með yfir klukkustundar langt og svitaaukandi góðmeti frá Airwaves 2007. Hlustaðu hér.

Challengers - The New Pornographers [2007]

NPCHALLENGERSKanadíska indísúpergrúppan, sem vill alls ekki láta kalla sig súpergrúppu, er hér með sína fjórðu breiðskífu en hún kom út í sumarlok. Ég á því miður ekkert af gamla stöffinu þeirra, hef reyndar heyrt eitt og eitt lag en það gefur auðvitað ekki heildarmynd á pakkanum. Eftir því sem ég hef lesið mér til þá er þessi plata, “Challengers”, sú sísta af þessum fjórum, ef tekið er mið af plötudómum hjá þessum helstu netmiðlum.

Ég heillaðist eiginlega strax að “Challengers” við fyrstu hlustun, mér fannst ég strax upplifa einhverja Belle & Sebastian stemningu, sem sagt léttleika, ferskleika og dass af kæruleysi. Það er greinilega mikil leikgleði á þessari plötu og skín hún í gegnum í mörgum lögum (t.d. "My rights versus yours" og "All the old showstoppers"). Svo eru líka nokkur lög í algjörum indípopp-heimsklassa á plötunni, þar á ég við "Adventures in solitude" og "Myriad Harbour", eintómur glæsibær þar á ferð. Það negatíva við plötuna er seinni partur hennar, þar er eiginlega bara "Adventures in solitude" sem eitthvað er varið í, hitt er skólabókar-miðlungur. Þetta er hressandi og fersk plata.


Hápunktar: "Adventures in solitude", "Myriad Harbour" og "My rights versus yours". (hlustið á lögin í spilaranum hér til hægri)

Einkunn: 8.0

Fróðleiksmoli: A.C. Newman er potturinn og pannan í þessari sveit og semur mest allt stöffið. A.C. var í sveitum eins og Superconductor og Zumpano. Hann hefur gefið út eina sólóplötu, það var "The slow wonder" árið 2004, sú skífa fékk ágætis dóma víðast hvar.

Vídjó: "My rights versus yours" spilað læv í þætti David Letterman

[mæspeis] [offisjal heimasíða]


Næsta stóra meikið...

Er þetta næsta íslenska meikið í útlandinu?


[mæspeis] [offisjal heimasíða]

Tvö ný lög með Hot Chip

hotchip_main Töflubryðjandi hressleiki hér á ferðinni, tvö ný lög af væntanlegri þriðju breiðskífu Hot Chip-flokksins. Ég kolféll fyrir þessum Bretum á annarri breiðskífu þeirra, "The Warning", sú plata var að mínum dómi besta plata síðasta árs, 2006. Hef smátt og smátt verið að kynnast fyrstu plötunni þeirra, "Coming on strong" (2004), en hún hefur ekki gripið mig eins algerlega og "The Warning".

Þeir sem ekki þekkja Hot Chip þá spila þeir svokallaða indítróníska tónlist, þetta er dansvæn melankólía eins og hún gerist best. Hot Chip komust rækilega á kortið í fyrrasumar þegar "Over and over" hljómaði út um allar trissur, en lög eins og "And I was a boy from school" gerðu einnig gott mót.

["Over and over" - myndband á jútjúb]

Þriðja skífan er svo væntanleg í febrúar 2008 og er vinnutitill hennar "Shot down in flames". Lögin tvö sem eru komin í umferð og almenna keyrslu á veraldarvefnum eru:

Shake a fist - Hot Chip (UK)
I became a volunteer - Hot Chip (UK)

"Shake a fist" er öllu hressari en "I became a volunteer", þó að dýptin sé kannski öllu meiri í lagasmíðinni í því síðara. Hlakka til að heyra plötunna í febrúar. (lögin tvö eru að sjálfsögðu til hlustanar í spilaranum uppi hægra megin á síðunni)

[mæspeis] [offisjal heimasíða

Höfundur

My Music
My Music
Bloggað um tónlist.
Sendu mér línu: blogmymusic[at]gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband