17.7.2007 | 23:36
White Stripes, Interpol og The National
Þrjár plötur hafa fengið að rúlla í tækinu upp á síðkastið, þetta eru "Icky thump" með White Stripes, "Our love to admire" með Interpol og svo "Boxer" með The National.
Í hnotskurn: Icky Thump White Stripes [2007]
Að hugsa sér að það séu liðin 10 ár frá því að White stripes kom fyrst fram á sjónarsviðið. Nýjasta plata dúettsins er afar hrátt kvikindi, hún er tekin upp á tæpum þremur vikum og er það merkilegt nokk lengsta upptökuferli sveitarinnar til þessa! Þetta er pjúra hrátt og nakið rokk og ról, þó í bland við áður óheyrð áhrif (hjá WS), m.a. sekkjapípur og almenn mariachi-stemning. Ætli Jack White láti ekki Raconteurs-frontið sitt sjá um hlustendavæna tónlist og noti dúettinn með systur/kærustu (?) sinni til þess að blúsa aðeins og leika sér með gítarmagnarana í Nashville? Gott plan. Ég er nokkuð ánægður með þessa plötu, svolítið erfitt að átta sig á henni en hún verður betri við hverja hlustun og það veit á gott.
Hápunktar: 300 M.P.H. Torrential Outpour Blues og Prickly Thorn, But Sweetly Worn. (hlustið hér til hægri)
Einkunn: 7.0
Fróðleiksmoli: White Stripes hafa, ólíkt flestum öðrum hljómsveitum, verið mjög duglegir við að leka EKKI lögum á netið áður en plötur þeirra koma út. En nokkrum vikum áður en að Icky Thump kom út var hún spiluð í heild sinni á útvarpsstöðinni Q101 í Chicago, þetta var í algjöru leyfisleysi. Jack White hringdi brjálaður í útvarpsstöðina og lét þá heyra það. Sögusagnir eru uppi um að plötufyrirtækið (Warner) hafi lekið plötunni til stöðvarinnar í kynningarskyni.
[myspace] [youtube] - myndband við titillag plötunnar
Í hnotskurn: Our love to admire Interpol [2007]
Verð að játa það að ég hef aldrei gefið þeim félögum í Interpol mikinn sjéns í gegnum árin, á hvorugar plöturnar þeirra en ákvað að næla mér í þá nýjustu eftir að ég heyrði fyrsta síngulinn ("The Heinrich Maneuver"). Mér líkar vel við þennan myrka indí-stíl sem þeir keyra á, greinileg Joy Division-áhrif í gangi og slatti af þunglyndi. Góður kokteill að mestu leiti en verður mjög fljótt einsleitur. Það eru nokkrar mjög góðar lagasmíðar á þessari plötu en mér finnst vanta nokkuð upp á til þess að hægt sé að tala um góða plötu. Þetta eintak er yfir meðallagi.
Hápunktar: Pioneer to the falls og The Heinrich Maneuver (hlustið hér til hægri)
Einkunn: 6.5
Fróðleiksmoli: Interpol eru taldir tilheyra post-punk-revival bylgjunni sem ruddi sér rúms á upphafi þessarar aldar. Skilgreiningin á þessari tónlistarbylgju er nokkurn veginn þannig að þetta er blanda af indírokki, póst-pönki og elektróník. Fleiri bönd sem tilheyra þessari bylgju eru t.d. Strokes, Liars, Yeah Yeah Yeahs og The Rapture. Pjúra póst-pönk hljómsveit og fánaberi þeirrar bylgju, ef út í þá sálma sé farið, er án efa Joy Division.
[myspace] [youtube] - myndband við lagið "The Heinrich Maneuver"
Í hnotskurn: Boxer The National [2007]
Fjórða stúdíóplata The National kom út í maí síðastliðnum en ég er reyndar bara tiltölulega nýbúinn að næla mér í eintak. Mikið hefur verið ritað og rætt um ágæti þessarar plötu og margir góðir dómar birst á öldum ljósvakans. Platan er ansi góð, því er ekki að neita. Sveimkenndi baritónninn hann Matt Berninger er frontur sveitarinnar og skapar hann skemmtilega melankólíska stemningu á þessari plötu, og ekki eru textar hans í slakari kantinum. Fyrir utan upphafslagið, Fake empire, er enginn augljós hittari á þessari plötu, heldur er hún mjög jöfn heilt yfir. Gott eintak hér á ferð.
Hápunktar: Fake empire, Green gloves og Start a war. (hlustið hér til hægri)
Einkunn: 7.5
Fróðleiksmoli: Myndin á plötuumslaginu er af hljómsveitinni þegar hún spilaði í brúðkaupi upptökustjórans síns, Peter Katis. Til gamans má geta að Peter þessi pródúseraði einmitt fyrstu tvær plötur Interpol, en ekki þá þriðju sem er hér að ofan.
[myspace] [youtube] - myndband við lagið "Mistaken for strangers"
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Áhugaverðar plötur sem þú tekur fyrir. Ég hef tekið undarlegt ástfóstur við interpol. Ég keypti plötuna Bright Lights eftir að Antics var komin út. Ég er búin að hlusta endalaust á þá plötu og á ekki en Antics. Ætli ég láti ekki verða af því fyrst þriðja platan þeirra er komin út.
White Stripes er merkileg hljómsveit sem hefur algjöra sérstöðu, ég náði í plötuna þeirra í gegnum Torrent og á eftir að tékka á henni.
National er forvitnileg hljómsveit, tékk á henni þegar ég hef tíma..
Ingi Björn Sigurðsson, 18.7.2007 kl. 18:52
Sammála þér með National, mjög flott plata. Icky Thump er fín en nýja Interpol finnst mér algjör yfirpródúseruð hörmung.
Stígur Helgason (IP-tala skráð) 18.7.2007 kl. 19:11
Eina platan sem ég hef virkilega kynnt mér af þessum lista er Icky Thump og ég er ánægð út í gegn.
Ragga (IP-tala skráð) 18.7.2007 kl. 19:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.