Leita í fréttum mbl.is

Sigur Rós á Hróarskeldu?

Ég var búinn að heyra af því fyrir nokkru síðan að það væri góðar líkur á því að Sigur Rós myndi spila á Hróarskeldu-tónlistarhátíðinni næsta sumar. Sá svo í dag á dansk/íslenska tónlistarblogginu Indie Laundry að þetta væri víst 99% öruggt (skv. áreiðanlegum heimildum þessa enskumælandi dansk/íslenska tónlistarbloggs). Sjá færsluna hér.

Síðar í dag birtist svo frétt á vef danska tónlistartímaritsins Soundvenue og þar var vitnað í sama blogg. Það verður spennandi að fylgjast með því þegar næstu Hróarskeldu-nöfn verða tilkynnt, ef rétt reynist þá verður þetta í fjórða sinn sem að sveitin spilar á hátíðinni.

Annars lítur lænuppið nú þegar ágætlega út, t.d. Band of horses, Radiohead, Battles, Teitur (FO), Efterklang (DK), Slayer og My Bloody Valentine! Það á auðvitað eftir að bætast haugur við þetta og öllu feitari bitar.

Vídjó: Hopp í polla - Sigur Rós


Múm fær góða dóma í Danmörku

Hljómsveitin Múm hélt tónleika í Árósum í gærkvöldi og fær sveitin mjög góða dóma hjá danska tónlistarblaðinu Gaffa.

Mest lesna tónlistarblað Dana, Gaffa, gefur sveitinni 5 stjörnur af 6 í dómi á vef sínum. Þar segir m.a. að þetta hafi verið heilsteypt tónleikaupplifun og Múm 2.0 væri meira "upbeat", glaðari og bjartsýnni en áður og það væri ekki að sjá að sveitin sakni systranna Gyðu og Kristínar. Hins vegar væri aldrei langt í kraft og flipp sveitarinnar og líkir gagnrýnandi Gaffa þessari upplifun við að vera bitinn í hálsinn af brjáluðum en jafnframt vel meinandi og leikglöðum hundi!

Íslensku sveitirnar Hjaltalín og Borko sáu um upphitunina í gær. Gaffa hrifust mjög af þeirri fyrrnefndu og henda 5 stjörnum af 6 á þá en Borko fær hins vegar aðeins 2 stjörnur. Tónleikadóm Gaffa og "settlista" Múm má sjá hér.

Fleiri íslenskar sveitir spila á danskri grundu á næstunni, Sprengjuhöllin og Hjaltalín spila í Kaupmannahöfn á laugardagskvöldið nk.

Laugardagslögin, forkeppni Evróvisjón

Ég ætlaði að skrifa langa (og leiðinlega) færslu um "Laugardagslögin" en hreinlega bara nennti því ekki. Í staðinn koma nokkrir punktar sem "súmmera" þetta ágætlega upp:

- Orðasambandið "að teygja lopann" hefur fengið nýja merkingu, þetta byrjaði mjög ferskt og skemmtilegt en var orðið hrikalega þreytt í lokin. Undir það síðasta skildi ég hvorki upp né niður í fyrirkomulaginu, kemst eitt lag áfram eða tvö? Hver var tilgangurinn með "wild card"-lögunum?

- Ragnheiður Steinunn var aldrei í sama dressinu tvisvar, vel af sér vikið ef tekið er tillit til að þættirnir voru vel á annað hundraðið!

- Erpur kom, sá og sigraði sem álitsgjafi. Ferskur vinkill að hafa hann þarna á kantinum, gerði þessa þrautargöngu þolanlega, jú ásamt Tvíhöfða auðvitað.

- Friðrik Ómar hefði betur sleppt þessu tunnu-kommenti sínu í leikslok, hann hefði staðið sterkari fyrir vikið. Menn þurfa að kunna að vinna líka (svo ég vitni nú í Gillzenegger úr Kastljósinu!). Það er auðvitað ekkert sem afsakar framkomu einhverra áhorfenda á meðan keppninni stóð, þá þurfti Friðrik ekki að detta niðrá sama plan.

- "Hvar ertu nú" var uppáhaldslagið mitt, enda eru Doktorarnir sameinaðir eitursterk blanda. Þetta lag á eftir að lifa um ókomna tíð, hin 32 ekki.

- Samt er ágætt að sá flytjandi (og höfundur) sem tók þetta (mest) alvarlega og virkilega langaði að vinna þetta "á réttum forsendum" (þó að þær rómantísku forsendur séu löngu brostnar í þessari keppni) fór með sigur af hólmi. Það gefur þeim (Eurobandinu og co.) þó engan rétt til þess að agnúast út í þá flytjendur sem tóku létt á þessari keppni og höfðu gaman að, það er ekki verið að vega að heiðri tónlistarmanna með því að gera létt grín að þessu fáranlega konsepti sem þessi keppni er.

- "Fullkomið líf" er frekar gleymanlegt lag með frekar gleymanlegum flytjendum, líst hins vegar betur á ef þjálfarinn myndi gera tvær breytingar á liði sínu: inn með Pál Óskar og Selmu í stað Friðriks og Regínu. Þá gætum "við" gert einhverja hluti. Þau síðastnefndu hafa lítinn sem engan kjörþokka, þau fyrrnefndu töluverðan.

- Ég neita að trúa því að Mercedes Club séu komin með plötusamning hjá Senu og að þau séu bókuð allar helgar út þetta ár. Ef ég man rétt þá var haft eftir talsmanni og plöggara Mercedes Club í einhverju blaðinu að þau ætluðu ekki að falla í sömu gryfju og Sylvía Nótt, sem "bara dó eftir forkeppnina úti". Uuhh, ég man ekki betur en það konsept hafi verið reynt til þrautar og orðið afskaplega þreytt. Ef að einhver á að muna eftir skemmtilegu og fersku framlagi Barða þetta árið væri best að leggja þennan klúbb á hilluna - þetta var orðið þreytt á úrslitakvöldinu, hvað þá eftir ár? Ég trúi því ekki að Barði ætli að halda þessu áfram og semja svona tónlist, ef ekki, kann einhver á hljóðfæri í þessu bandi? Erum við að tala um Monkees? 

- "Bolurinn" (meginstraumurinn í landinu) er búinn að eignast 33 ný íslensk dægurlög, sem eru auðvitað komin út á geisladisk. Til hamingju Ísland!

- Það lag sem ég fékk mest á heilann en er jafnframt eitt það slakasta í keppninni, er lagið "Picture". Ég hef staðið sjálfan mig að því að raula þetta lag við ótrúlegustu tækifæri.

Jæja, þetta átti bara að vera nokkrir stuttir punktar um Evróvisjón, en hver hefur ekki skoðun á þessari þjóðaríþrótt okkar Íslendinga?

Framlag Íra hefur vakið athygli, enda er það kalkúnn sem flytur. Ætli þetta vinni ekki bara í vor.


Nýleg vídjó: Late of the Pier, The New Pornographers, Efterklang og Band of Horses

Íslands og Airwaves-vinirnir í Late of the Pier sendu frá sér nýlega myndband við lagið "The bears are coming". Þokkalega fríkað myndband og ágætis lag. Sveitin spilar svokallað "njúreif" (a la Klaxons) en undir miklum áhrifum frá mönnum eins og Gary Numan og Brian Eno.



Mér finnst reyndar "Bathroom gurgle" ennþá vera þeirra besta lag hingað til.

Myndband við eitt af bestu lögum plötunnar "The Challengers" með The New Pornographers fór nýlega í spilun, um er að ræða lagið "Myriad Harbour". Prýðis góð plata frá því fyrra með Nýju klámhundunum, var ekki langt frá því svo sem að komast á topp 10 listann minn yfir bestu erlendu plötur ársins 2007. Myndbandið markar svo sem engin tímamót í myndbandsgerðarlistinni, ágætt engu að síður.



Danska sveitin Efterklang var að senda fá sér myndband við lagið "Illuminant" (af plötunni "Parades" sem kom út í fyrra). Efterklang eru þessa stundina á allsherjar Evrópurússi, spiluðu m.a. á Nordklang-tónlistarhátíðinni í Sviss um daginn, ásamt m.a. Amiinu og Pétri Ben. Þessar sveitir (Efterklang og Amiina) tengjast reyndar svolítið saman þar sem að einn drengjanna í dönsku sveitinni og ein snótin í Amiinu hafa ruglað saman reitum í þó nokkur ár, eða allar götur frá því að tvær Amiinur spiluðu strengi fyrir þessa dönsku sveit um nokkurra ára skeið.



Lagið og myndbandið er í súrari kantinum, eins og reyndar margt sem þessi sveit hefur gert. Þeir eru reyndar þrusu góðir læv, mikil upplifun og visjúalið hjá þeim er í ruglinu (þ.e. mjög gott).

Og svona rétt í lokin, eitt af mínum uppáhalds lögum frá því í fyrra, "No one's gonna love you" með Band of Horses, spilað læv í þætti Conan O´Briens. Söngvarinn, Ben Bridwell, kannski ekki alveg að höndla þetta í lokin, fer svolítið út af sporinu.

Vampire weekend – Vampire weekend [2008]

1108119098_006d46c93a_m New-York kvartettinn Vampire weekend gaf út debjú-plötu sína í lok síðasta mánaðar og má með sanni segja að hún komi með ferskan hressleika í upphafi tónlistarársins 2008. Við erum að tala um indípopp með afrískum áhrifum, eins einkennilega og það hljómar! Það er varla veikan blett að finna tónlistarlega séð, þetta eru “katsí” melódíur, hljóðfæraleikur og útsetningar til fyrirmyndar og mörg virkilega góð lög á þessari plötu. Það væri kannski helst textagerðin sem er ekki að gera mikið fyrir tónlistina, einfaldir textir um kampuslíf drengjanna, en hei, þetta er fyrsta plata sveitarinnar.

Mæli með þessari plötu!

Lög af plötunni sem vert er að hlusta á: “Mansard roof”, “Oxford comma” og “A-punk”.

Vídjó: A-punk 

Fortíðardraugar: 5 óþolandi 90s lög (annar hluti)

Í júlí síðastliðnum skrifaði ég færslu hér á bloggið er fjallaði um 5 leiðinleg lög frá 10. áratugnum (að mínum dómi!), þessi færsla skapaði skemmtilegar umræður um þennan áratug. Ég er á þeirri skoðun að 90s sé ekki jafn sterkur áratugur tónlistarlega séð og t.d. 60s og 80s, þessi tónlist stenst ekki tímans tönn jafn vel og mörg lög frá hinum fyrrnefndu tímabilunum.

Svona til gamans nefni ég fimm lög sem eiga það sameiginlegt að hafa fengið þó nokkra spilun (bæði í útvarpi og sjónvarpi) en fóru öll frekar mikið í taugarnar á mér. Eflaust eru einhverjir mér ósammála og auðvitað er orðið laust ef menn vilja tjá sig um þessi lög. Ég kalla þetta fortíðardrauga, sumir vilja meina að þetta séu gullmolar.

One and one - Robert Miles (1996)


Hinn ítalsk ættaði Svisslendingur hóf ferilinn sem plötusnúður en notaði allt spariféð sitt í að byggja sitt eigið hljóðver svo sköpunargáfan gæti notið sín. Árið 1994 skaut lagið "Children" kappanum á stjörnuhimininn með miklum brag. En fyrsta sólóskífan kom út árið 1996 og þá var þetta lag "One and one" mjög vinsælt en það er Maria Nayler sem syngur þetta leiðinlega lag. Robert Miles er enn þann dag í dag að gera músík, kíkið á mæspeisið hans og sendið honum línu. Gætuð t.d. spurt: "Robert, hvað klikkaði?"

Push the feeling on - Nightcrawlers (1993)

John Reid var hausverkurinn á bak við Nightcrawlers og þetta lag hér fyrir ofan sem var spilað í tætlur á því herrans ári 1993. John Reid hefur samið lög fyrir listamenn á borð við Tinu Turner, Rod Stewart og strákana í Westlife. Svo er hann líka góður vinur Simon Cowell! "Life better get uuuuu, my life is gífurlega smuuu.....", skilur einhver textann í þessu lagi? Við þetta má bæta, svona á jákvæðu nótunum, að þetta lag er talið vera einn af klassíkerunum í hústónlistarstefnunni (house music).

Freed from desire - Gala (1996)

Gala gerði garðinn frægann með þessu hrútleiðinlega lagi, komst í hæstu hæðir en sagði svo bara "stopp", hætti hjá leibelinu sínu og vildi fara sínar eigin leiðir. Þeir sem hafa áhuga á að fræðast meira um hana Gölu geta lesið smá greinarstúf um hana á wikipedia, reyndar grunar mig náfrænku hennar um að hafa skrifað þetta, svo jákvætt og æðislegt er þetta.

Let me be your fantasy - Baby D (1994)

Lagið kom upphaflega út árið 1992 en náði engum hæðum þá, var samt á topp 200 á óháða breska listanum í langan tíma eða allt þar til að London Records nældu sér í lagið og gáfu það út árið 1994. Þá fóru hjólin að snúast hjá þessum bresku reifurum, hrútleiðinlegt lag hér á ferðinni. Mér finnst Baby Dee miklu betra kaffi en Baby D.

Short dick man - 20 fingers (1994)

Það er deginum ljósara að það kom margt draslið út árið 1994, sjitt hvað þetta lag gerði marga geðveika hérna í denn. Músíkerkollektívan 20 Fingers með hana Söndru Gillette í broddi fylkingar á óheiðurinn af þessu, þetta þótti auðvitað of dónalegt og breyta þurfti titli lagsins og texta til þess að það fengi einhverja spilun, "Short dick man" varð "Short short man", einhvern veginn eftir þá breytingu þá missir þetta lag algjörlega marks, því ekki er tónlistarsmíðin að vega upp á móti! Hin gálulega Sandra rembist eins og rjúpa við staurinn að lifa á forni frægð, sjá mæspeisið hennar. Úúúú, bara rímix af stóra hittaranum og allt!

Orðið er laust
Endilega bendið á fleiri fortíðardrauga frá 90s og skemmtilegast væri ef þið gætuð linkað í myndband á jútjúb. Einnig er ykkur frjálst að verja þau lög sem ég hef slátrað hér að ofan, þetta er auðvitað bara mín skoðun.

Surfin´ bird - The Trashmen

Þetta lag hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Þetta er svo kúl lag en jafnframt mikil sýra að það nær ekki nokkurri átt.

Hljómsveitin The Trashmen er frá Minnesota og var stofnuð árið 1962. Þetta voru rokkarar en með nokkuð sérstaka áherslu miðað við staðsetningu (búsetu), þeir sungu um brimbretti og sólarstrendur en sóttu væntanlega ekki mikinn innblástur úr heimabyggðinni. Ári síðar, eða 1963, kom þetta lag eins og stormsveipur inn á ameríska vinsældarlistann og náði hæst fjórða sæti. Lagið var reyndar samsuða tveggja laga með ryþma- og blússveitinni The Rivingtons, þetta eru lögin "Papa-Oom-Mow-Mow" og "The Bird's the Word". Rusakarlarnir skrifuðu reyndar sjálfa sig fyrir laginu á fyrstu plötunni og voru Rivingtons eðlilega ekki par hrifin af því upptæki. Þau hótuðu öllu illu og fengu sínu framgengt, þ.e.a.s. Rivingtons eiga lagið "Surfin´bird". Það átti eftir að koma sér vel enda lagið mikið "koverað", m.a. af Ramones, Cramps og Beach Boys. Lagið kom líka fram í bíómyndum eins og "Pink Flamingos" (John Waters) og "Full Metal Jacket" (Stanley Kubrick).

Hér er "Papa-Oom-Mow-Mow" í flutningi Rivingtons en við heimatilbúið myndband einhvers "nöttara" í brúðuleikhúsleik. Hér er svo "The Bird's the Word" við annað heimagert myndband, alveg hreint ógleymanlega skemmtilegt en þó í flutningi Rivingtons.

Hér er svo lagið sjálft, "Surfin´bird" í flutningi The Trashmen en það sem fyrir augu ber í myndbandinu eru hinar ýmsu glefsur frá ferli sveitarinnar.



Bakhliðin á smáskífunni "Surfin´bird" var hið ágæta lag "King of surf", það má heyra hér og með smá kynningu af hinum geðþekka Music Mike.

The Trashmen lögðu upp laupana árið 1967 en náðu fram að því að gera nokkra hittara, þó engan í námunda við þá snilld sem er hér að ofan. Sveitin kom saman aftur í lok 80s og síðan stöku sinnum, við og við, við hin ýmsu tilefni.

Töflutætandi svíbjóður: "Det snurrar i min skalle"

Eða eitthvað svoleiðis. Ég fíla svona almennt ekki sænska tónlist, veit ekki hvað það er, það virðist bara ekki vera margt að mínu tónlistarskapi sem kemur frá Svíþjóð. Reyndar finnst mér lagið "Det snurrar i min skalle" með Familjen vera hreint alveg ilmandi gott kaffi. Þetta minnir helst á hið rjúkandi góða Skånerost kaffi frá Zoega, svo hressandi er þetta.

Allavega þá er Familjen eins manns verkefni Johanns T. Karlssonar og hefur debjú-platan sem kom út í fyrra, "Det snurrar i min skalle" fengið prýðisgóðar viðtökur í heimalandinu. Á tónleikum fær Johann hann Andreas Tillander vin sinn með sér í lið og stjórnar hann tökkum og tólum.
Tónlist Familjen mætti lýsa sem töflutætandi svíbjóði með dassi af 90s poppi, dans og teknó. Samsuða af Pet Shop Boys og Daft Punk kannski?

Hér er myndbandið við hið geysi hressandi lag, "Det snurrar i min skalle" (er einhver sterkur í sænskunni sem gæti þýtt þetta lagaheiti?):



[mp3] "Det snurrar i min skalle" - Familjen

Fleiri lög/vídjó með Familjen: "Hög luft", "Kom sager dom" og svo má sjá lagið "Det snurrar i min skalle" læv hér á Malmöfestivalen, óhætt að segja að þetta sé vinsælt í Svíaríki, allavega á Skáni, þar sem að menn drekka Skånerost kaffi.

[mæspeis]

Geymt og grafið: nokkur 80s lög

Ákvað að dusta rykið af 80s safninu mínu og finna fram nokkur lög sem virðast einhvern veginn hafa fallið í gleymskunnar dá. Hér eru þrjú kvikindi valin af handahófi, en þau eiga það öll sameiginlegt að vera urrandi góð og hressandi.

If I was – Midge Ure
uvox_ure2James Ure (kallaður Jim, afturábak er Jim = Mij, sem verður Midge) er kannski frægastur fyrir að vera fronturinn í Ultravox (t.d. lagið “Vienna”) og fyrir að hafa samið “Do they know it´s christmas?” ásamt Bob Geldof. Það sem kannski færri muna eftir er að hann gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 1985 sem bar heitið “The Gift” og á henni var þetta ódauðlega lag, “If I was”.

Myndbandið við lagið er náttúrulega bara í takt við það sem var að gerast á þessum tíma, almenn hallærislegheit og tískuslys! Spurning samt um að ofnota ekki “pin impression”-effektinn um of í myndbandinu! Reyndar rifjar þetta upp gamla tíma þegar þetta dót var gríðarlegar vinsælt.

“If I was” er í spilaranum hér til hægri.



Love missile F1-11 – Sigue Sigue Sputnik
n95n-s57 Tónlist Sigue Sigue Sputnik (eða “Brenna, brenna, gervihnöttur”) er kannski best skilgreind sem glam-poppað cyperpönk, þessi sveit er nokkuð merkileg og vilja gárungarnir meina að hún sé meiri áhrifavaldur í tónlistarsögunni en gefið sé í skyn. Þá er kannski helst verið að tala um framkomu og heildarpakka frekar en einhverja tónlistarlega snilld. “Love missile F1-11” var fyrsti síngull sveitarinnar og fór í þriðja sæti breska listans og var lagið m.a. í hinnu geysivinsælu kvikmynd “Ferris Bueller’s day off”. Fyrsta plata sveitarinnar, sem og síngullinn, er pródúseraður af meistara Giorgio Moroder.

“Love missile F1-11” er í spilaranum hér til hægri.



Too late for goodbyes – Julian Lennon
396c_1Mér finnst skrýtið að þessi perla hans Julian hafi ekki lifað betur en raun ber vitni, þetta er einstaklega kunnuglegt sánd, Lennon-legt og með svona dass af UB40-ska/reggí áhrifum, sem sagt, steinliggur. Lagið er af fyrstu breiðskífu Julian og var þetta aðal hittari plötunnar. Julian er eins og flestir vita sonur John Lennon og fyrri konu hans, Cynthiu. Þetta lag er merkilegt fyrir þær sakir að Toots nokkur Thielemans leikur á munnhörpu í laginu, Toots er þekktur belgískur djazzari og var mikill áhrifavaldur fyrir John Lennon á Hamborgar-árunum svokölluðu. Þetta lag ætti að vera í nokkuð reglulegri spilun í útvarpi, allavega á Bylgjunni.

“Too late for goodbyes” er í spilaranum hér til hægri.


Héðan og þaðan.... (uppfært)

Blogg-andinn kannski ekki alveg kominn yfir mann á nýja árinu. Kannski að smá hrærigrautur hjálpi til við að koma manni í gang.

Árið 2007 að baki og ekkert splönkunýtt svo sem komið inn á borð til mín, ekki ennþá allavega. Þar til að það gerist er best að skoða það sem fyrir er í safninu og leyfa ykkur að njóta.

mmj Sækadelíu indí-kantrýrokkararnir í My Morning Jacket (MMJ) eru miklir snillingar, platan þeirra "It still moves" frá árinu 2003 fær reglulega spilun hérna hjá mér enda afbragðs eintak þar á ferð. Platan "Z" frá árinu 2005 hitti ekki eins mikið í mark hjá mér, von er á plötu frá þeim í júní á þessu ári. Þeir sem hafa séð Bob Dylan-myndina "I´m not there" muna kannski eftir þeim í einu Richard Gere-atriðinna þegar þeir taka lagið "Tonight I'll Be Staying Here With You" (uppfært: það er bara Jim James frontmaður úr MMJ sem kemur við sögu og er það sveitin Calexico sem er með honum, þeir taka lagið "Goin' to Acapulco" en ekki "Tonight I´ll be staying here with you" rétt skal vera rétt! Uppgötvaði þessi mistök mín er ég las bloggið hjá Kidda rokk), þeir komu sterkir inn þar. Best að skjóta inn einu lagi með MMJ, flest allt er frábært af plötunni "It still moves" en upphafslagið ber af, "Mahgeetah".

Lagið "Mahgeetah" er í spilaranum hér til hægri.



[mæspeis]

nick_lucas_bob_dylan_12_64 Talandi um Bob Dylan, best að að láta eitt gamalt og gott af "Freewheelin´" flakka. "Oxford town" er mikil ádeila á aðskilnaðarstefnuna í USA, þarna er Dylan að taka fyrir eitt sérstakt atriði þegar fyrsti svarti háskólaneminn sem fékk inngöngu í Missisippi-háskólanum ætlaði að mæta í tíma, allt varð vitlaust í skólanum og við Oxford-kampusinn, átök brutust út, Kennedy forseti sendi herinn til að róa mannskapinn og tveir létust meira að segja í átökunum. Hræðilegur atburður en flott lag og meistaralegur texti.

"Oxford town" er í spilaranum hér til hægri.

[web]

Höldum okkur við aðskilnaðarstefnu og baráttusöngva. "Reiði er orka" segja Johnny Rotten og félagar í Public Image Limited í laginu "Rise" frá árinu 1986. Alltaf jafn hressandi að heyra þetta lag af plötunni "Album", þ.e.a.s. ef þú átt hana á vínyl, annars hét hún "Cassette" sem snælda, eða þá "Compact disc" á CD. Allavega, þetta koncept þeirra var ekkert nýtt, pönk/nojs sveitin Flipper frá San Francisco hafði víst gert þetta áður og voru síður en svo kátir með þetta framtak hjá PiL, svo óhressir voru þeir að næsta plata Flipper eftir þessa uppákomu hét "Public Flipper Limited".
PiL þykja með merkilegustu póst-pönk sveitunum, ég hef ekki girt kyrfilega niðrum þessa sveit en þessir helstu "hittarar" eru góðir, þá aðallega "Rise".

Lagið "Rise" er í spilaranum hér til hægri.



[John Rotten web]


11716-17012006145105 Per Vilhelm er danskur tónlistarmaður sem nemur bókasafns- og upplýsingafræði í Kaupmannahöfn, en þegar stund gefst á milli stríða semur hann tónlist og spilar í bandinu sínu Vilhelm. Vilhelm spilar þjóðlagaskotið kantrýrokk, svokallað "Americana" og gerir það einstaklega fagmannlega og sannfærandi. Eitthvað virðist fyrsta breiðskífan láta standa á sér en út kom þröngskífa fyrir nokkrum misserum síðan, sú skífa hét einfaldlega "Vilhelm EP" og inniheldur m.a. lagið "Burning ghost" sem er hreint afbragð. Vilhelm hefur fengið fína dóma á viðurkenndum netmiðlum í Danmörku en einhvern veginn virðist ekki vera markaður fyrir þessa tegund tónlistar í landi baunanna.

Lagið "Burning ghost" er í spilaranum hér til hægri.

[Mæspeis]

powersolo Höldum okkur við Danmörku, þar eru Íslandsvinirnir í Powersolo í góðu stuði. Fyrir þá sem ekki þekkja þá spilar þetta tríó rokkabillí, sörfskotið pönk og hafa þeir spilað þó nokkrum sinnum á Íslandi. Þeir gáfu síðast út plötu árið 2006 sem bar nafnið "Egg", sú plata fékk misjafnar viðtökur og skilur þannig séð ekki mikið eftir sig. Annað verður sagt um plötuna frá 2004 sem bar hið huggalega heiti "It´s raceday... and your pu**y is gut", þar eru góðir smellir, m.a. "Kat Nazer". Brakandi góðmeti.

Lagið "Kat Nazer" er í spilaranum hér til hægri.




[mæspeis]

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

My Music
My Music
Bloggað um tónlist.
Sendu mér línu: blogmymusic[at]gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband