Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Sigur Rós á Hróarskeldu?

Ég var búinn að heyra af því fyrir nokkru síðan að það væri góðar líkur á því að Sigur Rós myndi spila á Hróarskeldu-tónlistarhátíðinni næsta sumar. Sá svo í dag á dansk/íslenska tónlistarblogginu Indie Laundry að þetta væri víst 99% öruggt (skv. áreiðanlegum heimildum þessa enskumælandi dansk/íslenska tónlistarbloggs). Sjá færsluna hér.

Síðar í dag birtist svo frétt á vef danska tónlistartímaritsins Soundvenue og þar var vitnað í sama blogg. Það verður spennandi að fylgjast með því þegar næstu Hróarskeldu-nöfn verða tilkynnt, ef rétt reynist þá verður þetta í fjórða sinn sem að sveitin spilar á hátíðinni.

Annars lítur lænuppið nú þegar ágætlega út, t.d. Band of horses, Radiohead, Battles, Teitur (FO), Efterklang (DK), Slayer og My Bloody Valentine! Það á auðvitað eftir að bætast haugur við þetta og öllu feitari bitar.

Vídjó: Hopp í polla - Sigur Rós


Múm fær góða dóma í Danmörku

Hljómsveitin Múm hélt tónleika í Árósum í gærkvöldi og fær sveitin mjög góða dóma hjá danska tónlistarblaðinu Gaffa.

Mest lesna tónlistarblað Dana, Gaffa, gefur sveitinni 5 stjörnur af 6 í dómi á vef sínum. Þar segir m.a. að þetta hafi verið heilsteypt tónleikaupplifun og Múm 2.0 væri meira "upbeat", glaðari og bjartsýnni en áður og það væri ekki að sjá að sveitin sakni systranna Gyðu og Kristínar. Hins vegar væri aldrei langt í kraft og flipp sveitarinnar og líkir gagnrýnandi Gaffa þessari upplifun við að vera bitinn í hálsinn af brjáluðum en jafnframt vel meinandi og leikglöðum hundi!

Íslensku sveitirnar Hjaltalín og Borko sáu um upphitunina í gær. Gaffa hrifust mjög af þeirri fyrrnefndu og henda 5 stjörnum af 6 á þá en Borko fær hins vegar aðeins 2 stjörnur. Tónleikadóm Gaffa og "settlista" Múm má sjá hér.

Fleiri íslenskar sveitir spila á danskri grundu á næstunni, Sprengjuhöllin og Hjaltalín spila í Kaupmannahöfn á laugardagskvöldið nk.

Laugardagslögin, forkeppni Evróvisjón

Ég ætlaði að skrifa langa (og leiðinlega) færslu um "Laugardagslögin" en hreinlega bara nennti því ekki. Í staðinn koma nokkrir punktar sem "súmmera" þetta ágætlega upp:

- Orðasambandið "að teygja lopann" hefur fengið nýja merkingu, þetta byrjaði mjög ferskt og skemmtilegt en var orðið hrikalega þreytt í lokin. Undir það síðasta skildi ég hvorki upp né niður í fyrirkomulaginu, kemst eitt lag áfram eða tvö? Hver var tilgangurinn með "wild card"-lögunum?

- Ragnheiður Steinunn var aldrei í sama dressinu tvisvar, vel af sér vikið ef tekið er tillit til að þættirnir voru vel á annað hundraðið!

- Erpur kom, sá og sigraði sem álitsgjafi. Ferskur vinkill að hafa hann þarna á kantinum, gerði þessa þrautargöngu þolanlega, jú ásamt Tvíhöfða auðvitað.

- Friðrik Ómar hefði betur sleppt þessu tunnu-kommenti sínu í leikslok, hann hefði staðið sterkari fyrir vikið. Menn þurfa að kunna að vinna líka (svo ég vitni nú í Gillzenegger úr Kastljósinu!). Það er auðvitað ekkert sem afsakar framkomu einhverra áhorfenda á meðan keppninni stóð, þá þurfti Friðrik ekki að detta niðrá sama plan.

- "Hvar ertu nú" var uppáhaldslagið mitt, enda eru Doktorarnir sameinaðir eitursterk blanda. Þetta lag á eftir að lifa um ókomna tíð, hin 32 ekki.

- Samt er ágætt að sá flytjandi (og höfundur) sem tók þetta (mest) alvarlega og virkilega langaði að vinna þetta "á réttum forsendum" (þó að þær rómantísku forsendur séu löngu brostnar í þessari keppni) fór með sigur af hólmi. Það gefur þeim (Eurobandinu og co.) þó engan rétt til þess að agnúast út í þá flytjendur sem tóku létt á þessari keppni og höfðu gaman að, það er ekki verið að vega að heiðri tónlistarmanna með því að gera létt grín að þessu fáranlega konsepti sem þessi keppni er.

- "Fullkomið líf" er frekar gleymanlegt lag með frekar gleymanlegum flytjendum, líst hins vegar betur á ef þjálfarinn myndi gera tvær breytingar á liði sínu: inn með Pál Óskar og Selmu í stað Friðriks og Regínu. Þá gætum "við" gert einhverja hluti. Þau síðastnefndu hafa lítinn sem engan kjörþokka, þau fyrrnefndu töluverðan.

- Ég neita að trúa því að Mercedes Club séu komin með plötusamning hjá Senu og að þau séu bókuð allar helgar út þetta ár. Ef ég man rétt þá var haft eftir talsmanni og plöggara Mercedes Club í einhverju blaðinu að þau ætluðu ekki að falla í sömu gryfju og Sylvía Nótt, sem "bara dó eftir forkeppnina úti". Uuhh, ég man ekki betur en það konsept hafi verið reynt til þrautar og orðið afskaplega þreytt. Ef að einhver á að muna eftir skemmtilegu og fersku framlagi Barða þetta árið væri best að leggja þennan klúbb á hilluna - þetta var orðið þreytt á úrslitakvöldinu, hvað þá eftir ár? Ég trúi því ekki að Barði ætli að halda þessu áfram og semja svona tónlist, ef ekki, kann einhver á hljóðfæri í þessu bandi? Erum við að tala um Monkees? 

- "Bolurinn" (meginstraumurinn í landinu) er búinn að eignast 33 ný íslensk dægurlög, sem eru auðvitað komin út á geisladisk. Til hamingju Ísland!

- Það lag sem ég fékk mest á heilann en er jafnframt eitt það slakasta í keppninni, er lagið "Picture". Ég hef staðið sjálfan mig að því að raula þetta lag við ótrúlegustu tækifæri.

Jæja, þetta átti bara að vera nokkrir stuttir punktar um Evróvisjón, en hver hefur ekki skoðun á þessari þjóðaríþrótt okkar Íslendinga?

Framlag Íra hefur vakið athygli, enda er það kalkúnn sem flytur. Ætli þetta vinni ekki bara í vor.


Nýleg vídjó: Late of the Pier, The New Pornographers, Efterklang og Band of Horses

Íslands og Airwaves-vinirnir í Late of the Pier sendu frá sér nýlega myndband við lagið "The bears are coming". Þokkalega fríkað myndband og ágætis lag. Sveitin spilar svokallað "njúreif" (a la Klaxons) en undir miklum áhrifum frá mönnum eins og Gary Numan og Brian Eno.



Mér finnst reyndar "Bathroom gurgle" ennþá vera þeirra besta lag hingað til.

Myndband við eitt af bestu lögum plötunnar "The Challengers" með The New Pornographers fór nýlega í spilun, um er að ræða lagið "Myriad Harbour". Prýðis góð plata frá því fyrra með Nýju klámhundunum, var ekki langt frá því svo sem að komast á topp 10 listann minn yfir bestu erlendu plötur ársins 2007. Myndbandið markar svo sem engin tímamót í myndbandsgerðarlistinni, ágætt engu að síður.



Danska sveitin Efterklang var að senda fá sér myndband við lagið "Illuminant" (af plötunni "Parades" sem kom út í fyrra). Efterklang eru þessa stundina á allsherjar Evrópurússi, spiluðu m.a. á Nordklang-tónlistarhátíðinni í Sviss um daginn, ásamt m.a. Amiinu og Pétri Ben. Þessar sveitir (Efterklang og Amiina) tengjast reyndar svolítið saman þar sem að einn drengjanna í dönsku sveitinni og ein snótin í Amiinu hafa ruglað saman reitum í þó nokkur ár, eða allar götur frá því að tvær Amiinur spiluðu strengi fyrir þessa dönsku sveit um nokkurra ára skeið.



Lagið og myndbandið er í súrari kantinum, eins og reyndar margt sem þessi sveit hefur gert. Þeir eru reyndar þrusu góðir læv, mikil upplifun og visjúalið hjá þeim er í ruglinu (þ.e. mjög gott).

Og svona rétt í lokin, eitt af mínum uppáhalds lögum frá því í fyrra, "No one's gonna love you" með Band of Horses, spilað læv í þætti Conan O´Briens. Söngvarinn, Ben Bridwell, kannski ekki alveg að höndla þetta í lokin, fer svolítið út af sporinu.

Vampire weekend – Vampire weekend [2008]

1108119098_006d46c93a_m New-York kvartettinn Vampire weekend gaf út debjú-plötu sína í lok síðasta mánaðar og má með sanni segja að hún komi með ferskan hressleika í upphafi tónlistarársins 2008. Við erum að tala um indípopp með afrískum áhrifum, eins einkennilega og það hljómar! Það er varla veikan blett að finna tónlistarlega séð, þetta eru “katsí” melódíur, hljóðfæraleikur og útsetningar til fyrirmyndar og mörg virkilega góð lög á þessari plötu. Það væri kannski helst textagerðin sem er ekki að gera mikið fyrir tónlistina, einfaldir textir um kampuslíf drengjanna, en hei, þetta er fyrsta plata sveitarinnar.

Mæli með þessari plötu!

Lög af plötunni sem vert er að hlusta á: “Mansard roof”, “Oxford comma” og “A-punk”.

Vídjó: A-punk 

Fortíðardraugar: 5 óþolandi 90s lög (annar hluti)

Í júlí síðastliðnum skrifaði ég færslu hér á bloggið er fjallaði um 5 leiðinleg lög frá 10. áratugnum (að mínum dómi!), þessi færsla skapaði skemmtilegar umræður um þennan áratug. Ég er á þeirri skoðun að 90s sé ekki jafn sterkur áratugur tónlistarlega séð og t.d. 60s og 80s, þessi tónlist stenst ekki tímans tönn jafn vel og mörg lög frá hinum fyrrnefndu tímabilunum.

Svona til gamans nefni ég fimm lög sem eiga það sameiginlegt að hafa fengið þó nokkra spilun (bæði í útvarpi og sjónvarpi) en fóru öll frekar mikið í taugarnar á mér. Eflaust eru einhverjir mér ósammála og auðvitað er orðið laust ef menn vilja tjá sig um þessi lög. Ég kalla þetta fortíðardrauga, sumir vilja meina að þetta séu gullmolar.

One and one - Robert Miles (1996)


Hinn ítalsk ættaði Svisslendingur hóf ferilinn sem plötusnúður en notaði allt spariféð sitt í að byggja sitt eigið hljóðver svo sköpunargáfan gæti notið sín. Árið 1994 skaut lagið "Children" kappanum á stjörnuhimininn með miklum brag. En fyrsta sólóskífan kom út árið 1996 og þá var þetta lag "One and one" mjög vinsælt en það er Maria Nayler sem syngur þetta leiðinlega lag. Robert Miles er enn þann dag í dag að gera músík, kíkið á mæspeisið hans og sendið honum línu. Gætuð t.d. spurt: "Robert, hvað klikkaði?"

Push the feeling on - Nightcrawlers (1993)

John Reid var hausverkurinn á bak við Nightcrawlers og þetta lag hér fyrir ofan sem var spilað í tætlur á því herrans ári 1993. John Reid hefur samið lög fyrir listamenn á borð við Tinu Turner, Rod Stewart og strákana í Westlife. Svo er hann líka góður vinur Simon Cowell! "Life better get uuuuu, my life is gífurlega smuuu.....", skilur einhver textann í þessu lagi? Við þetta má bæta, svona á jákvæðu nótunum, að þetta lag er talið vera einn af klassíkerunum í hústónlistarstefnunni (house music).

Freed from desire - Gala (1996)

Gala gerði garðinn frægann með þessu hrútleiðinlega lagi, komst í hæstu hæðir en sagði svo bara "stopp", hætti hjá leibelinu sínu og vildi fara sínar eigin leiðir. Þeir sem hafa áhuga á að fræðast meira um hana Gölu geta lesið smá greinarstúf um hana á wikipedia, reyndar grunar mig náfrænku hennar um að hafa skrifað þetta, svo jákvætt og æðislegt er þetta.

Let me be your fantasy - Baby D (1994)

Lagið kom upphaflega út árið 1992 en náði engum hæðum þá, var samt á topp 200 á óháða breska listanum í langan tíma eða allt þar til að London Records nældu sér í lagið og gáfu það út árið 1994. Þá fóru hjólin að snúast hjá þessum bresku reifurum, hrútleiðinlegt lag hér á ferðinni. Mér finnst Baby Dee miklu betra kaffi en Baby D.

Short dick man - 20 fingers (1994)

Það er deginum ljósara að það kom margt draslið út árið 1994, sjitt hvað þetta lag gerði marga geðveika hérna í denn. Músíkerkollektívan 20 Fingers með hana Söndru Gillette í broddi fylkingar á óheiðurinn af þessu, þetta þótti auðvitað of dónalegt og breyta þurfti titli lagsins og texta til þess að það fengi einhverja spilun, "Short dick man" varð "Short short man", einhvern veginn eftir þá breytingu þá missir þetta lag algjörlega marks, því ekki er tónlistarsmíðin að vega upp á móti! Hin gálulega Sandra rembist eins og rjúpa við staurinn að lifa á forni frægð, sjá mæspeisið hennar. Úúúú, bara rímix af stóra hittaranum og allt!

Orðið er laust
Endilega bendið á fleiri fortíðardrauga frá 90s og skemmtilegast væri ef þið gætuð linkað í myndband á jútjúb. Einnig er ykkur frjálst að verja þau lög sem ég hef slátrað hér að ofan, þetta er auðvitað bara mín skoðun.

Höfundur

My Music
My Music
Bloggað um tónlist.
Sendu mér línu: blogmymusic[at]gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband