Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Neutral Milk Hotel

Lagið sem var merkt “xxxxx-xxxxx” í tónlistarspilaranum heitir réttilega “King of carrot flowers pt. 1” og er með amerísku indírokksveitinni Neutral Milk Hotel. Egill var með þetta rétt í kommentakerfinu í færslunni hér fyrir neðan.

Texti lagsins er nokkuð spes, eins og réttilega var bent á, og lýsir ofbeldi á milli móður og föður, sem og fyrstu kynlífsreynslu ungs pars. [Texti lagsins] Lagið er að finna á plötunni “In the aeroplane over the sea” sem var tekin upp sumarið 1997 og kom út í febrúar árið 1998.

Það er nú ekkert voðalega langt síðan að ég fór fyrst að hlusta á Neutral Milk Hotel, komt yfir plötuna "In the aeroplan over the sea" og hreifst strax af hráum einfaldleikanum sem og súrum og skemmtilegum textum Jeff Mangum. "On avery Island" er síðri, ekki jafn mikil snilld en engu að síður gott stöff.

Jeff_MangumHljómsveitin, eða réttara sagt eins-manns-prójektið Neutral Milk Hotel (hér eftir kallað NMH), var stofnuð um miðbik tíunda áratugarins í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í Denver í Colorado-fylki. NMH var í raun og veru einn maður að nafni Jeff Mangum (f. 1970), hann hafði áður barið trommur í Synthetic Flying Machine og The Olivia Tremor Control, áður en hann byrjaði á þessu “upptökuverkefni” sínu sem hann kallaði Neutral Milk Hotel. Áður hafði hann t.d. sent frá sér kasettu-demó í nokkrum eintökum undir nafninu Milk. NMH sendi frá sér þó nokkuð af kasettu-demóum þangað til að fyrsta  alvöru efnið kom út í fjöldaframleiddum eintökum, það var sjö tomman “Everything is” árið 1994, gefin út af Cher Doll.

Fyrsta breiðskífan kom út nokkrum árum síðar (1996), Jeff fékk félaga sinn Rob Schneider til liðs við sig og var platan spiluð inn í hljóðveri Robs,  Pet Sounds Studio, og með hjálp góðra spilafélaga kom fyrsta breiðskífan:  “On Avery Island” í mars árið 1996. Plötufyrirtækið Merge Records gaf út, en hjá þeim leibel eru m.a. Arcade Fire, M. Ward, Lou Barlow, Lambchop o.fl.

Neutral_Milk_HotelEftir þessa plötu bætti varð NMH fjögurra manna sveit, auk Jeff þá bættust við Julian Koster, Scott Spillane og Jeremy Barnes. Sveitin flutti til N.Y þar sem þeir bjuggu hjá ömmu eins meðlimsins, tíminn var nýttur í að æfa. Síðan var haldið í Ameríku-túr og fyrsta opinbera giggið leit dagsins ljós í lok apríl árið 1996. Sveitin fluttist svo til Athens í Georgíu-fylki þar sem að Jeff lokaði sig af og samdi megnið af stöffinu fyrir nýju væntanlegu plötuna. Loks var flutt aftur til Denver til þess að gera aðra breiðskífu.

In_the_aeroplane_over_the_sea_album_cover_copy”In the aeroplane over the sea” var tekin upp árið 1998, Rob Schneider pródúseraði aftur en platan fékk frábærar viðtökur í þröngum hópi í kringum sveitina, því miður ekki hjá almenningi eins og vonir kannski stóðu til. Þessi plata er af mörgum talin vera eitt af meistarastykkjum indí-tónlistarinnar og er mikið költ í dag. Pitchforkmedia valdi plötuna til að mynda sem fjórðu bestu plötu 10. áratugarins og gaf t.d. endurútgáfu plötunnar 10.0 í einkunn (sjaldgæft á þeim bænum!). Mörg lög plötunnar eru byggð á draumum Jeffs um gyðingafjölskyldu í seinni heimstyrjöldinni og einnig inspereruð af sögu Önnu Frank (gyðingastelpunni sem skráði dagbók í heimstyrjöldinni síðari). Lagið “Holland, 1945” styður þá kenningu en Anna Frank lést einmitt í marsmánuði það ár.

NMH túruðu stíft í heilt ár eftir útgáfu plötunnar og það tók sinn toll á Jeff kallinn, þeir þurftu síðan að neita mörgum fyrirspurnum og m.a. frá sjálfum R.E.M. um að vera þeirra upphitunarband á tónleikaferðalagi. Seinna átti Jeff það til að spila í einu og einu einkasamkvæmi en lítið hefur heyrst né sést til hans síðan, fyrir utan eitt og eitt tilraunaverkefni.

Sterkur vinskapur hafði myndast, m.a. hjá Jeff Mangum, Rob Schneider og fleirum tónlistarfélögum þeirra frá menntaskólaárunum í Louisiana, sem varð til þess að saman stofnuðu þeir plötufyrirtækið og kollektívuna Elephant 6, þetta var á fyrri hluta 10. áratugarins. Þeir stóðu fyrir böndum eins og NMH, The Apples in Stereo (sem Rob Schneider var í) og Of Montreal, svo einhver séu nefnd. Þeim tókst þó ekki að halda í þessi bönd sem flest öll sömdu við stærri og fjársterkari leibela.

Það skjóta reglulega upp kollinum sögur þess efnis að NMH ætli að koma saman á ný en þeim er jafnan eytt strax  aftur og þá aðallega af Jeff Mangum. Nú síðast í fyrra var umræða mikil á spjallborði óopinberrar heimasíðu Elephant 6, þar var því haldið fram að Jeff Mangum væri að vinna að nýju efni og ætlaði sér að túra innan skamms. Þetta olli miklu fjaðrafoki í indíheiminum, það birtust m.a. fréttir þess efnis á vefum Pitchforkmedia, Rolling Stone og Billboard. Sagan reyndist þó ekki vera á rökum reist og kvað Rob Schneider, félagi Jeffs, hana niður.

Við verðum því bara að lifa í voninni um að einn af snillingum indí-þjóðlagarokksins renni blóðið til skyldunnar og sendi frá sér plötu í anda NMH.

Ný lög í spilaranum hér til hægri:
- The King Of Carrot Flowers Pt. One (af "On the aeroplane over the sea" frá árinu 1998)
- In The Aeroplane Over The Sea (af "On the aeroplane over the sea" frá árinu 1998)
- Naomi (af "On avery Island" frá árinu 1996)

Tenglar: 
[Heimasíða Neutral Milk Hotel]
[Óopinber heimasíða Elephant 6]
[Slatti af alls kyns MP3 og myndböndum með NMH]
[Pitchforkmedia: viðtal við Jeff Mangum árið 2002]

Og svona alveg í blálokin þá koma tvö myndbönd með NMH:
Fyrst læv upptaka frá einum af síðustu tónleikum sveitarinnar, tekið upp í Athens í Georgíu-fylki. Hér er það lagið "King Of Carrot Flowers Part 2 & 3".

Og svo "In the aeroplane over the sea", læv upptaka frá gamlaársdegi árið 1998.


Getraun, hressandi 80s-myndband og Travis í hnotskurn

Á þessum ágæta sunnudegi hef ég þetta að segja:

Í hnotskurn: The boy with no name - Travis [2007]
TbwnnFyrir mér hafa Travis-menn alltaf verið frekar hlutlausir og meðfærilegir, það hefur aldrei farið mikið fyrir þeim. Þeir hafa náð einum og einum slagara í hæstu hæðir en þess á milli dottið niður. Fimmta breiðskífa Skotanna knáu er nýkomin út og í stuttu máli þá er akkúrat ekkert nýtt í henni, gamla góða Travis-sándið skín í gegn og eru Travis-aðdáendur eflaust himinlifandi með það. Hins vegar verða þeir fyrir vonbriðgum sem vonuðust eftir þroskaðra eintaki og að meðlimir sveitarinnar þyrðu að taka meiri áhættu í lagasmíðum sínum. Fyrri helmingur plötunnar er fínn, hvorki meira né minna, margar fínar lagasmíðar en svo hallar undan fæti og eftir stendur frekar gleymanleg plata.

Hápunktar: "Closer" og "Selfish Jean" (hlustið í spilaranum hér til hægri -->)
Einkunn: 6.0

Fróðleiksmoli: Nafnið á plötunni, “The boy with no name”, er þannig til komið að Fran Healy söngvari Travis sendi tölvupóst á vin sinn með mynd af nýfæddum syni sínum og var fyrirsögn póstsins einmitt, nafnlausi drengurinn.

[myspace] ["selfish jean"-myndband]


Hressandi myndband frá 9. áratugnum
Hvar man ekki eftir Bronski Beat? Röddin hans Jimmy Sommerville fer upp í rjáfur í þessu lagi. Meðlimir Bronski Beat vildu með þessu myndbandi vekja athygli á stöðu samkynhneigðra í Bretlandi, enda segir myndbandið frá sögu Jimmy sem kom ungur út úr skápnum. Þeir létu ekki þar við sitja, á fyrstu breiðskífu tríósins, "The age of consent", er að finna innan í plötuumslaginu lista yfir hin ýmsu lönd og hvert aldurstakmarkið er fyrir karlmenn að gera "hitt" með öðrum karlmanni í hverju landi fyrir sig. Með þessu vildu þeir sýna að aldurstakmarkið í UK, sem var þá 21 árs, væri of hátt miðað við hin löndin. Það er gott bít í þessu.


Getraun

Í spilaranum hér til hægri er að finna lag merkt: "xxxxx-xxxxx". Ég spyr, hvað heitir lagið og hver flytur? Þeir sem hafa áhuga geta kommentað hér fyrir neðan. Smá vísbending.... lagið er að finna á þessari plötu:
albumcover080707


6 laga mixteip: sumarskap

Ákvað að finna til 6 lög sem koma mér í gott skap, ja... sumarskap ef þið viljið. Þessi lög eru valin af handahófi og koma héðan og þaðan úr safni mínu. Lögin eru öll að finna í tónlistarspilaranum hér til hægri (merkt #Mix: flytjandi-lagaheiti) sem og má sjá myndbönd við lögin (stundum læv) í boði jútjúb hér fyrir neðan.

Mr. Blue sky - Electric Light Orchestra (1978)
Eftir að ég byrjaði að hlusta mikið á Bítlana á sínum tíma þá komst ég fljótlega í kynni við Jeff Lynne og þá snilld sem hann var að gera með ELO. “Mr. Blue Sky” kemur mér ávallt í gott skap. Lagið hefur verið mikið notað í auglýsingaskyni, stórir retailer-ar eins og Marks & Spencer, Sears og fleiri hafa notað lagið. Margir muna einnig eftir herferð 365 fjölmiðla hér á landi í fyrra að mig minnir og hljómaði lagið undir í auglýsingunni. Hér er það læv í Top of the Pops:

Ain´t no easy way out – Black Rebel Motorcycle Club (2005)
Frábært lag af frábærri plötu “Howl” sem kom út síðsumars árið 2005. Platan var mikil kúvending fyrir BRMC, frá því að spila nokkuð hrátt þjóðlagabílskúrs-rokk var komið meira blúsað og akústískara sánd hjá tríóinu. Þetta fór misvel í gagnrýnendur eins og gengur og gerist. Ég fíla hins vegar þessa plötu í tætlur, þetta lag er með þeim sterkari á plötunni. Hérna spila þeir lagið læv í Ft. Lauderdale USA:
 

She don´t use jelly – Flaming Lips (1993)
Fyndið að þetta sé stærsti smellur sveitarinnar “ever”, ekki það að þetta sé það besta sem þeir hafi sent frá sér. Það skemmdi ekki fyrir að lagið var spilað í hinum geysivinsæla þætti Beavis & Butthead á MTV sem og að sveitin kom fram í ekki ómerkari þætti en Beverly Hills 90210 og flutti þetta lag á skólaballi. Eftir sveitin hafði spilað lagið þá átti Steve Sander þá fleygu setningu: “You know, I've never been a big fan of alternative music, but these guys rocked the house!” Lagið er hressandi, gítarriffið ógleymanlegt og afar grípandi.

The skin of my yellow country teeth – Clap Your Hands Say Yeah (2005)
CYHSY voru á allra vörum árið 2005 og komu með ótrúlega ferska vinda inn í músíkina. Það má segja að Pitchforkmedia hafi startað þessu hæpi með góðum dómi um plötuna þeirra “Clap your hands say yeah” sem kom út þarna um sumarið. Platan er ein af þeim bestu þetta árið að mínum dómi og þetta lag kemur mér alltaf í góðan gír. Hérna er læv-útgáfa tekin upp á tónleikum í Dyflinni:

Dom andra – Kent (2002)
Sænsku Kent eru mjög svo stórt nafn í Skandinavíu en hafa aldrei náð mikilli hylli utan hennar, allavega ekki af einhverju ráði. Á fimmtu breiðskífu sveitarinnar, “Vapen & ammunition” frá árinu 2002 er þetta stórgóða lag að finna, “Dom andra”, eða á íslensku: hinir. Myndbandið er voðalega sænskt eitthvað:


The sun ain´t gonna shine anymore – Walker Brothers (1966)
Margir þekkja Scott Walker, hann átti að margra mati eina bestu breiðskífu síðasta árs “The Drift”, skífa sem ég hreinlega gat ekki hlustað á! Það er kannski færri sem vita að hann var í tríóinu Walker Brothers á sjöunda og áttunda áratugi síðustu aldar. Þetta voru reyndar engir bræður, það þótti bara vera meira kúl og bissness-vænlegra að gefa sig út fyrir að vera þrír sætir bræður frá Kaliforníu. Lagið gerði góða hluti árið 1966, sérstaklega í UK (þeir voru frá USA). Sögur herma að Walker-bræður hafi verið með stærri aðdáendaklúbb en sjálfir Bítlarnir á þessum árum, látum það vera! Fínt lag engu að síður, á stundum vel við yfir sumartímann.


« Fyrri síða

Höfundur

My Music
My Music
Bloggað um tónlist.
Sendu mér línu: blogmymusic[at]gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 675

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband