28.2.2008 | 09:51
Laugardagslögin, forkeppni Evróvisjón
Ég ætlaði að skrifa langa (og leiðinlega) færslu um "Laugardagslögin" en hreinlega bara nennti því ekki. Í staðinn koma nokkrir punktar sem "súmmera" þetta ágætlega upp:
- Orðasambandið "að teygja lopann" hefur fengið nýja merkingu, þetta byrjaði mjög ferskt og skemmtilegt en var orðið hrikalega þreytt í lokin. Undir það síðasta skildi ég hvorki upp né niður í fyrirkomulaginu, kemst eitt lag áfram eða tvö? Hver var tilgangurinn með "wild card"-lögunum?
- Ragnheiður Steinunn var aldrei í sama dressinu tvisvar, vel af sér vikið ef tekið er tillit til að þættirnir voru vel á annað hundraðið!
- Erpur kom, sá og sigraði sem álitsgjafi. Ferskur vinkill að hafa hann þarna á kantinum, gerði þessa þrautargöngu þolanlega, jú ásamt Tvíhöfða auðvitað.
- Friðrik Ómar hefði betur sleppt þessu tunnu-kommenti sínu í leikslok, hann hefði staðið sterkari fyrir vikið. Menn þurfa að kunna að vinna líka (svo ég vitni nú í Gillzenegger úr Kastljósinu!). Það er auðvitað ekkert sem afsakar framkomu einhverra áhorfenda á meðan keppninni stóð, þá þurfti Friðrik ekki að detta niðrá sama plan.
- "Hvar ertu nú" var uppáhaldslagið mitt, enda eru Doktorarnir sameinaðir eitursterk blanda. Þetta lag á eftir að lifa um ókomna tíð, hin 32 ekki.
- Samt er ágætt að sá flytjandi (og höfundur) sem tók þetta (mest) alvarlega og virkilega langaði að vinna þetta "á réttum forsendum" (þó að þær rómantísku forsendur séu löngu brostnar í þessari keppni) fór með sigur af hólmi. Það gefur þeim (Eurobandinu og co.) þó engan rétt til þess að agnúast út í þá flytjendur sem tóku létt á þessari keppni og höfðu gaman að, það er ekki verið að vega að heiðri tónlistarmanna með því að gera létt grín að þessu fáranlega konsepti sem þessi keppni er.
- "Fullkomið líf" er frekar gleymanlegt lag með frekar gleymanlegum flytjendum, líst hins vegar betur á ef þjálfarinn myndi gera tvær breytingar á liði sínu: inn með Pál Óskar og Selmu í stað Friðriks og Regínu. Þá gætum "við" gert einhverja hluti. Þau síðastnefndu hafa lítinn sem engan kjörþokka, þau fyrrnefndu töluverðan.
- Ég neita að trúa því að Mercedes Club séu komin með plötusamning hjá Senu og að þau séu bókuð allar helgar út þetta ár. Ef ég man rétt þá var haft eftir talsmanni og plöggara Mercedes Club í einhverju blaðinu að þau ætluðu ekki að falla í sömu gryfju og Sylvía Nótt, sem "bara dó eftir forkeppnina úti". Uuhh, ég man ekki betur en það konsept hafi verið reynt til þrautar og orðið afskaplega þreytt. Ef að einhver á að muna eftir skemmtilegu og fersku framlagi Barða þetta árið væri best að leggja þennan klúbb á hilluna - þetta var orðið þreytt á úrslitakvöldinu, hvað þá eftir ár? Ég trúi því ekki að Barði ætli að halda þessu áfram og semja svona tónlist, ef ekki, kann einhver á hljóðfæri í þessu bandi? Erum við að tala um Monkees?
- "Bolurinn" (meginstraumurinn í landinu) er búinn að eignast 33 ný íslensk dægurlög, sem eru auðvitað komin út á geisladisk. Til hamingju Ísland!
- Það lag sem ég fékk mest á heilann en er jafnframt eitt það slakasta í keppninni, er lagið "Picture". Ég hef staðið sjálfan mig að því að raula þetta lag við ótrúlegustu tækifæri.
Jæja, þetta átti bara að vera nokkrir stuttir punktar um Evróvisjón, en hver hefur ekki skoðun á þessari þjóðaríþrótt okkar Íslendinga?
Framlag Íra hefur vakið athygli, enda er það kalkúnn sem flytur. Ætli þetta vinni ekki bara í vor.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.